Kosið í þrjár nefndir vegna fjárlaga

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigurður Ingi Jóhannsson forsætisráðherra lagði á fundi sínum með formönnum þingflokkanna fram tillögu um að kosið verði í þrjár nefndir Alþingis vegna afgreiðslu fjárlaga og tengdra mála.

Nefndirnar sem um ræðir eru fjárlaganefnd og efnahags- og viðskiptanefnd, ásamt forsætisnefnd til að stýra fundum.

Frétt mbl.is: Vill ræða við Viðreisn og Bjarta framtíð

Ræddu fjárlögin og jöfnun lífeyrisréttinda

Aðspurður segir hann að fundurinn í stjórnarráðinu hafi gengið vel. „Við vorum að ræða mikilvægi þess að á þessu þingi, sem er auðvitað ekki langt, verði hægt að ljúka við fjárlagavinnuna og tryggja heimildir ríkisins til að stofnanir hafi fjárheimildir og fólk fái laun. Til þess þarf að afgreiða fjárlög og bandorm um tekjuhlið fjárlaga,“ segir Sigurður Ingi.

Hann bætir við að rætt hafi verið um jöfnun lífeyrisréttinda og mikilvægi þess að nýta þann glugga sem er opinn núna til að ljúka því. Einnig þarf að afgreiða fjárauka vegna ársins 2016.

Frá upphafi fundarins í stjórnarráðinu í morgun.
Frá upphafi fundarins í stjórnarráðinu í morgun. mbl.is/Golli

„Þungt fyrir fæti“

Sigurður Ingi kveðst bjartsýnn á að það takist að afgreiða fjárlögin á tilsettum tíma. „Það var ágætissamhljómur um mikilvægi þess að geta starfað á þingi og að ljúka þessum verkefnum þó svo að til hliðar ættu sér stað stjórnarmyndunarviðræður.“

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, fékk umboðið til stjórnarmyndunar fyrir helgi. Spurður hvort hún sé bjartsýn á að henni takist að mynda fimm flokka stjórn segir hún að það verði að koma í ljós hvernig það gengur. „En það hlýtur að vera dálítið þungt fyrir fæti í ljósi allra yfirlýsinga.“

Kosningar hljóta að koma til álita

Rætt hefur verið um að kosningar verði mögulega haldnar aftur, vegna þess hve erfiðlega hefur gengið að mynda ríkisstjórn. Sigurður Ingi segir að það hljóti að koma til álita náist ekki samkomulag um að mynda meirihlutastjórn, finni menn ekki flöt á öðru nema hugsanlega minnihlutastjórn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert