Upplýsingamiðstöð ferðamanna flyst í ráðhúsið

Upplýsingamiðstöð ferðamanna verður staðsett í Ráðhúsi Reykjavíkur frá og með …
Upplýsingamiðstöð ferðamanna verður staðsett í Ráðhúsi Reykjavíkur frá og með næsta janúar. Mynd/Ragnar Th.

Höfuðborgarstofa hefur valið fyrirtækið Guide to Iceland (GTI) til samstarfs um rekstur sölu og bókunarstarfsemi í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík. Fyrirtækið hefur samstarf við Höfuðborgarstofu 16. janúar á næsta ári en þá opnar Upplýsingamiðstöð ferðamanna á nýjum stað í Ráðhúsi Reykjavíkur. Upplýsingamiðstöð ferðamanna hefur verið starfrækt í Aðalstræti 2 frá árinu 2002, en það hefur verið félagið Iceland Travel Assistance sem sá um upplýsingamiðstöðina þar.

Þremur fyrirtækjum, Iceland Travel Assistance, MD Reykjavík og Guide to Iceland, var boðið að taka þátt í samningaviðræðum að undangengnu hæfismati um rekstur miðstöðvarinnar. Samkvæmt tilkynningu frá Höfuðborgarstofu fékk Guide to Iceland hæstu einkunn matsnefndar og byggði hún á eftirfarandi þáttum: Þjónustu, gæðum og stýringu, starfsmannahaldi, búnaði og tækjakosti, vistvænum rekstri, nýsköpun og þróun og þóknun til Höfuðborgarstofu.

Segir í tilkynningunni að það hafi verið einróma álit matsnefndarinnar að GTI hefði sett fram þá samningstillögu sem uppfyllti best framsettar kröfur samningaviðræðugagna. Menningar- og ferðamálaráð Reykjavíkurborgar samþykkti í kjölfarið einróma tillögu matsnefndarinnar um að taka tilboði Guide to Iceland um rekstur sölu- og bókunarstarfsemi í Upplýsingamiðstöð ferðamanna í Reykjavík.

Matsnefndin var skipuð Áshildi Bragadóttur, forstöðukonu Höfuðborgarstofu, Karen Maríu Jónsdóttur, deildarstjóra Upplýsingamiðstöðvar ferðamanna í Reykjavík, Hrafnhildi Ýr Víglundsdóttur, fulltrúa Ferðamálastofu, og Grétari Þór Jóhannssyni, fulltrúa innkaupadeildar Reykjavíkurborgar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert