Vefsíðan skakkennsla.is opnuð

Friðrik Ólafsson tefldi við unga skákkonu.
Friðrik Ólafsson tefldi við unga skákkonu. mbl.is/Ófeigur

Friðrik Ólafsson stórmeistari í skák opnaði í dag formlega nýja vefsíðu, skakkennsla.is. Á henni er að finna fjölbreytt úrval kennslumyndbanda í skák. 

Markmiðið með gerð vefsíðunnar er að auðvelda aðgengi að náms- og kynningarefni á íslensku um skák sem einkum nýtist börnum sem eru að læra að tefla, skákkennurum í skólum og foreldrum sem vilja hjálpa börnum sínum með að verða betri skákmenn. Á vefnum er að finna rúmlega 120 kennslumyndbönd bæði fyrir byrjendur og lengra komna, að því er kemur fram í tilkynningu.

Friðrik Ólafsson opnar vefsíðuna.
Friðrik Ólafsson opnar vefsíðuna. mbl.is/Ófeigur

Samstarfsverkefni með GAMMA

Vefsíðan er samstarfsverkefni Skáksambands Íslands og GAMMA Capital Management og er ætlunin að fjölga myndböndunum eftir því sem tíminn líður.

Í tilkynningunni segir að Skáksamband Íslands og GAMMA vonist til að verkefnið verði íslensku skáklífi mikil lyftistöng í framtíðinni og muni gagnast börnum vel sem kennsluefni í skák.

Kennsluefnið skiptist í megingreinar skáklistarinnar; miðtöfl, endatöfl og byrjanir, auk þess eru frægum skákum úr skáksögunni gerð skil ásamt myndböndum sem fjalla um feril íslensku stórmeistaranna.

Vefsíðan var formlega tekin í notkun í Rimaskóla í dag og við það tilefni var spilað myndband um feril Friðriks Ólafssonar. Hann varð Íslandsmeistari í skák aðeins 17 ára gamall og Norðurlandameistari ári síðar. Hann varð stórmeistari í skák fyrstur Íslendinga árið 1958, þá 23 ára gamall. 

Myndband um feril Friðriks var spilað.
Myndband um feril Friðriks var spilað. mbl.is/Ófeigur

Vonar að vefsíðan hafi jákvæð áhrif

„Það er ánægjulegt að vönduð kennsluvefsíða um skák fyrir börn sé komin í gagnið. Það er von mín að vefsíðan verði vel sótt og hafi jákvæð áhrif á skákiðkun barna, foreldra og kennara. Skák er einstaklega skemmtileg, eflir rökhugsun, einbeitingu og sköpunargáfu sem styrkir jafnframt námsgetu barna,“ segir Friðrik í tilkynningunni.

Höfundur kennslumyndbandanna er Björn Ívar Karlsson, sem hefur FIDE-þjálfaragráðu og er einn reyndasti skákkennari landsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert