Átta mánaða fangelsi fyrir vopnað rán

Héraðsdómur Norðurlands eystra.
Héraðsdómur Norðurlands eystra. mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Karlmaður var í síðustu viku dæmdur í átta mánaða fangelsi, þar af sex mánuði skilorðsbundna, í Héraðsdómi Norðurlands eystra. Hann er dæmdur fyrir vopnað rán á Akureyri í september. 

Ákærði var klæddur dökkri hettupeysu með hettu fyrir andliti og grímu og vopnaður hníf. Hann ógnaði starfsstúlku verslunar og neyddi hana til að afhenda honum 62.000 krónur. 

Ákærði hefur komið fyrir dóm og skýlaust játað sök, líkt og verknaði hans er lýst í ákæru með áðurgreindum breytingum.  Játning ákærða er í samræmi við rannsóknargögn lögreglu, þ. á m. í ítrekaðri yfirheyrsluskýrslu ákærða, vitnaskýrslum, ljósmyndum og öðrum gögnum.  Að þessu virtu er að áliti dómsins ekki ástæða til efa að játning ákærða fyrir dómi sé sannleikanum samkvæm.

Ákærði, sem er tvítugur, hefur samkvæmt sakavottorði áður sætt refsingum.  Hann var 28. janúar dæmdur til sektarrefsingar fyrir umferðarlagabrot, þ. á m. fíkniefnaakstur, og var þá jafnframt sviptur tímabundið ökurétti.  Þá var hann 2. nóvember dæmdur í þrjátíu daga skilorðsbundið fangelsi fyrir þjófnaðarbrot.

Við ákvörðun refsingar ákærða ber að líta til alvarleika þess brots sem ákærði hefur hér verið sakfelldur fyrir, en samkvæmt 252. gr. hegningarlaganna varðar brot gegn lagagreininni fangelsi ekki skemur en í sex mánuði og allt að tíu árum.  Til þess ber einnig að líta að ákærði játaði brot sín greiðlega, hann er ungur að árum og að fremur lítill ávinningur varð af brotinu. 

Dóminn má lesa hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert