Eva og Unnsteinn verndarar UN Women

Unnsteinn Manúel og Eva María.
Unnsteinn Manúel og Eva María. Ljósmynd/UN Women

Eva María Jónsdóttir og Unnsteinn Manúel Stefánsson eru nýir verndarar UN Women á Íslandi. Taka þau við af Unni Ösp Stefánsdóttur og Sigríði Dúnu Kristmunsdóttur sem sinnt hafa hlutverkinu undanfarin ár.

Unnsteinn og Eva María tóku við keflinu í Ljósagöngu UN Women 25. nóvember síðastliðinn á alþjóðlegum baráttudegi Sameinuðu þjóðanna gegn kynbundnu ofbeldi.

„Kynbundið ofbeldi og misrétti kvenna er oftast af karlavöldum. Þess vegna þurfum við ekki síður að taka þátt í umræðunni. Ég held það sé mikilvægt að skoða af hverju mannskepnan beitir ofbeldi. En ekki síður hef ég mikla trú á framtíðinni og hvernig menntun og þekking muni breyta kjörum kvenna í t.d. þriðja heiminum. Og þar með breytist allur heimurinn,“ segir Unnsteinn um nýtt hlutverk sitt sem verndari UN Women.

„Að taka afstöðu með mannúð, mannréttindum og mannlegri reisn er nauðsynlegt. Ef tækifæri býðst til að gera það á áþreifanlegan hátt er maður fljótur að þiggja það og stökkva um borð með samtökum eins og UN Women,“ segir Eva María.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert