Hefur liðið fyrir „langvarandi sparnaðarstefnu“

Kennarasamband Íslands segir þörf á að setja í forgang aðgerðir …
Kennarasamband Íslands segir þörf á að setja í forgang aðgerðir sem búi kennurum aðstæður til að sinna því meginverkefni sem þeir eru sérfræðingar í – að mennta æsku landsins. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Kennarasamband Íslands hefur sent frá sér tilkynningu vegna birtingar á niðurstöðum PISA-2015. Sambandið lýsir yfir áhyggjum vegna niðurstaðnanna en segir þær ekki frábrugðnar meginlínum á tímabilinu 2000 til 2015. „Ísland heldur áfram að síga niður á við.“

Kennarasambandið segir að taka þurfi niðurstöðurnar alvarlega og að mikilvægt sé að fram fari málefnaleg umræða. Þá segir í tilkynningunni að brýnt sé að unnið verði með niðurstöðurnar „í víðtæku samstarfi stjórnvalda, kennara, skólastjórnenda og foreldra.“

Í skýrslu menntamálanefndar um niðurstöðurnar kemur fram að á Íslandi er mikill munur á meðaltali milli landshluta í lesskilning, stærðfræði- og náttúrulæsi. Segir Kennarasambandið óásættanlegt að slíkur munur sé á stöðu nemenda eftir landshlutum, kyni og hópum.

Að lokum segir í tilkynningunni að undanfarin ár hafi íslenskt menntakerfi liðið fyrir „langvarandi sparnaðarstefnu“ og nú sé þörf á að setja í forgang aðgerðir sem „felast í að tryggja eðlilega endurnýjun í stéttinni, viðhalda kennurum í starfi og búa þeim góð kjör og starfsaðstæður til að sinna því meginverkefni sem þeir eru sérfræðingar í – sem er að mennta æsku landsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert