Auðvelt að mynda ríkisstjórn

Gunnar Geir Vigfússon ljósmyndari hefur myndað 45 ríkisstjórnir með mannabreytingum …
Gunnar Geir Vigfússon ljósmyndari hefur myndað 45 ríkisstjórnir með mannabreytingum og hanga myndirnar uppi í Stjórnarráðshúsinu. mbl.is/Árni Sæberg

Erfiðlega hefur gengið að mynda ríkisstjórn undanfarnar vikur. Gunnar Geir Vigfússon lætur það ekki á sig fá og bíður rólegur eftir því að mynda enn eina ríkisstjórn Íslands, en enginn hefur myndað eins margar og hann.

Gunnar G. Vigfússon er enginn venjulegur ljósmyndari heldur hefur hann sérhæft sig í opinberum ljósmyndatökum og myndar mest prúðbúið fólk. Hann hefur til dæmis myndað embættistökur forseta Íslands frá 1976, alls 11 sinnum, opinberar heimsóknir forseta Íslands innanlands og opinberar heimsóknir erlendra þjóðhöfðingja og annarra sérstakra gesta hingað til lands auk sendiherra erlendra ríkja, þegar þeir afhenda forsetanum trúnaðarbréf sitt.

„Ég myndaði fyrstu opinberu heimsókn Margrétar Danadrottningar til Kristjáns Eldjárns 1973 og fyrsta ríkisstjórnarmyndin, sem ég tók, var af fráfarandi stjórn Ólafs Jóhannessonar 1976. Sama dag tók ég mynd af nýrri ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar,“ segir Gunnar.

Ljósmyndarinn á ekki langt að sækja fyrirmyndina. Hann lærði ljósmyndun hjá föður sínum, Vigfúsi Sigurgeirssyni, og tók við af honum eftir að hafa unnið með honum lengi. Vigfús myndaði til dæmis þjóðstjórnina 1939, utanþingsstjórnina 1942 og síðan margar ríkisstjórnir þar til hann hætti. „Þetta er langur tími en frá 1976 hef ég myndað 45 ríkisstjórnir með mannabreytingum.“

Gunnar segir að ekki sé erfitt að mynda ríkisstjórn. „Þetta er alltaf sama uppstillingin,“ segir hann og bætir við að fyrirsæturnar séu ávallt ljúfar sem lömb. „Það hafa aldrei komið upp nein vandamál.“

Ríkisstjórnir koma og fara og breytingar eru gerðar af og til. Gunnar segist aðeins muna eina dagsetningu í þessu sambandi. „Mér er minnisstæðust ríkisstjórnin sem mynduð var 8. febrúar 1980,“ rifjar hann upp. „Þá lá við að mynduð yrði utanþingsstjórn en Gunnar Thoroddsen klauf sig frá Sjálfstæðisflokknum og myndaði mjög umtalaða ríkisstjórn.“ Hann bætir við að Kristján Eldjárn forseti hafi verið mjög ánægður með myndun stjórnarinnar og Halldóra, eiginkona hans, hafi boðið sér að setjast með þeim inn í stofu og skála við þau í tilefni dagsins. „Þegar ég kom inn stóð Kristján upp, heilsaði mér innilega og sagði: „Jæja, Gunnar minn Geir. Hvernig finnst þér að vera búinn að sameina Sjálfstæðisflokkinn í nafninu þínu?““

Alltaf til taks

Stjórnmálin eru óútreiknanleg en Gunnar hefur alltaf verið til taks, þegar ríkisstjórn hefur verið mynduð. „Svo undarlega vill til að ég hef alltaf verið heima á þessum tíma,“ segir hann og leggur áherslu á að hann hafi aldrei þurft að gera sérstakar ráðstafanir til þess að geta mætt á Bessastaði á réttum tíma.

„Reyndar þurfti ég einu sinni að breyta um gang vegna þess að breyting á ríkisstjórn var fyrirhuguð en svo varð ekki af henni á þeim tíma. Núna er ég til dæmis nýkominn úr fríi og ekkert á förum á næstunni, því tilbúinn hvenær sem er.“

Staðan sem slík er ekki opinber staða heldur er kallað á Gunnar þegar á þarf að halda. „Þetta er hefð,“ segir hann og bætir við að gott sé að hafa festu á hlutunum. „Filmusafnið og myndirnar eru á einum stað og auðvelt að grípa til mynda ef þarf.“

Gunnar segir að starfið sé alltaf jafn skemmtilegt og bendir á að þó uppstillingin sé alltaf eins séu engar tvær myndir eins. Hann á sér enga uppáhalds ríkisstjórn og bíður alltaf rólegur eftir þeirri næstu. „Ég var spenntur til að byrja með enda merkilegt að fá að mynda ríkisstjórnina en þetta er komið upp í vana. Ég mynda bara ríkisstjórn þegar á þarf að halda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert