Klári Krýsuvíkurveg árið 2018

Krýsuvíkurvatn. Vegurinn sem um ræðir liggur frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni …
Krýsuvíkurvatn. Vegurinn sem um ræðir liggur frá Hafnarfirði meðfram Kleifarvatni og niður á Suðurstrandarveg. mbl.is/RAX

Frá árinu 2011 hefur verið unnið að því að malbika Krýsuvíkurveg frá Krýsuvík að Hafnarfirði. Enn er þó um eins kílómetra vegkafli um Vatnsskarð ómalbikaður. Nú sér aftur á móti fyrir endann á þessari framkvæmd, því stefnt er á að klára kaflann árið 2018.

Umferð um veginn árið 2015 var rúmlega 200 bílar á sólarhring og hafði tæplega tvöfaldast á fimm árum. Yfir sumartímann er meðalumferð um 370 bílar á sólarhring. Hefur aukin umferð haldist í hendur við aukinn ferðamannastraum, en keyrt er um veginn til að komast að hverasvæðinu í Krýsuvík og til að komast á Suðurstrandarveg.

Þá hefur vegurinn verið vinsæll meðal hjólreiðafólks, en malarkaflinn, sem liggur yfir nokkuð brattan háls hefur verið helsta hindrun þeirra sem þar hjóla um á götuhjólum.

Kaflinn er um 1 kílómetra langur um Vatnsskarð á Krýsuvíkurvegi.
Kaflinn er um 1 kílómetra langur um Vatnsskarð á Krýsuvíkurvegi. mynd/mbl.is

Umræða um framkvæmdir við veginn kom nýlega upp á Facebook-síðunni Vinir Framkvæmdafrétta, en þar er umræðuvettvangur um vegamál. G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir í samtali við mbl.is að malbikunin hafi ekki verið á vegaáætlun heldur hafi verið fengið fé sem hafi verið eyrnamerkt tengivegum. Nú sé stefnt að því að klára kaflann árið 2018.

Segir hann að standa þurfi vel að framkvæmdinni, þar sem hálsinn sé viðkvæmur og ekki náist að klára framkvæmdina fyrr vegna fjármagns sem til þurfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert