Funda líklega áfram um helgina

Katrín Jakobsdóttir, formaður VG.
Katrín Jakobsdóttir, formaður VG. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Forystumenn stjórnmálaflokkanna fimm sem átt hafa í óformlegum stjórnarmyndunarviðræðum að undanförnu funduðu í um það bil eina og hálfa klukkustund fyrir hádegi í dag og er gert ráð fyrir því að áfram verði fundað um helgina á sömu nótum.

Flokkarnir, Vinstrihreyfingin - grænt framboðs, Píratar, Viðreisn, Björt framtíð og Samfylkingin, hafa fundað undanfarna daga í kjölfar þess að Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, afhenti Birgittu Jónsdóttur, þingmanni Pírata, umboð til stjórnarmyndunar fyrir viku. Viðræðurnar snúast um að kanna hvort tilefni sé til að hefja formlegar viðræður.

Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, segir að byrjað sé að ræða hugmyndir flokkanna um tekjuöflun og útgjöld ríkisins. „Þar leggjum við sem fyrr mikla áherslu á að við stöndum við loforð um umbætur í heilbrigðis- og menntakerfinu.“

Viðræður um þau mál hófust fyrir alvöru í gær. Samkvæmt heimildum mbl.is fundaði hluti af forystumönnum flokkanna fimm einnig eftir hádegi um sjávarútvegsmál en Katrín segist aðspurð ekki hafa setið þann fund.

Engin ákvörðun liggur enn fyrir um það hvort hafnar verði formlegar viðræður á milli flokkanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert