Innbrot, eignaspjöll og varsla fíkniefna

mbl.is/Brynjar Gauti

Tveir menn voru handteknir um tíuleytið í gærkvöldi í Kópavoginum grunaðir um innbrot, eignaspjöll og vörslu fíkniefna. Þeir eru báðir vistaðir í fangaklefa vegna rannsóknar málsins.

Lögreglan handtók mann í Hafnarfirði í nótt en hann er grunaður um líkamsárás. Maðurinn er vistaður í fangageymslu fyrir rannsókn máls en lögreglan virðist ekki vita neitt frekar um þann sem varð fyrir árásinni. 

Um átta í gærkvöldi handtók lögreglan mann sem var til vandræða í Pósthússtræti en maðurinn, sem var til vandræða vegna ölvunar og neyslu fíkniefna, er ferðamaður. Hann gistir fangageymslur þangað til ástand hans skánar.

Síðdegis í gær og snemma í gærkvöldi hafði lögregla afskipti af fólki vegna vörslu fíkniefna á heimilum sínum í Vestur- og Austurbænum.

Tilkynnt var um slagsmál og rúðubrot við Ingólfsstræti í nótt og ræddi lögreglan við þá sem þar voru að verki á vettvangi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert