Keypti kók og vann 22 milljónir

Maður af Vesturlandi sem vann 22 milljónir í lottóinu í nóvember ætlar að nýta vinninginn til að greiða niður skuldir.

Vinningshafinn lukkulegi hefur nú gefið sig fram við Íslenska getspá en happamiðann keypti hann hjá N1 í Borgarnesi í lok nóvember.

Maðurinn segist oft stoppa á leið sinni hjá N1 til að kaupa sér kók og ákvað að þessu sinni að taka með einn lottómiða. 

Næst þegar hann átti leið hjá bað hann afgreiðslumanninn að renna miðanum í gegn til að kanna hvort það væri nokkuð vinningur á miðanum sem myndi duga fyrir kókflösku. Og viti menn: Það var heldur betur vinningur á miðanum sem dugði vel fyrir þessum kaupum því á honum leyndist vinningur upp á rúmlega 22 skattfrjálsar milljónir. 

Vinningshafinn er jarðbundinn maður og ætlar að fjárfesta fyrir vinninginn. Að hans sögn er besta fjárfestingin að borga niður skuldir og það ætlar hann sér að gera og eins að klára framkvæmdir á heimili sínu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert