Spá 30 m/s undir Eyjafjöllum

Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum.
Fjúkandi fossar undir Eyjafjöllum. mbl.is/Einar Falur Ingólfsson

Búist er við stormi (meira en 20 m/s) við suðausturströndina og á hálendinu eftir hádegi. Búast má við hviðum yfir 30 m/s undir Eyjafjöllum og í Öræfum.

Gert er ráð fyrir að veðrið nái hámarki síðdegis, en fer að draga úr vindi í kvöld. Í nótt og á morgun má búast við talsverðri rigningu austan til á landinu, segir í viðvörun á vef Veðurstofu Íslands. 

„Gengur í norðaustan og austan hvassviðri eða storm í dag, hvassast verður undir Eyjafjöllum og í Öræfum síðdegis í dag og má búast við hviðum yfir 30 m/s á þeim slóðum. Víða rigning, en úrkomulítið vestan til á landinu. Úrkomumeira austan til á landinu í kvöld. Dregur hægt úr vindi í nótt og á morgun, 8-15 m/s annað kvöld. Dálítil rigning austan til, en annars þurrt að mestu. Suðlæg átt og vætusamt sunnan og vestan til á sunnudag, en úrkomulítið norðaustan til. Eftir helgi er síðan von á nokkrum kröppum lægðum úr suðri sem ganga hratt norður á bóginn fram hjá landinu með miklum sviptingum í veðri,“ segir í hugleiðingum vakthafandi veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.

Spáin fyrir næsta sólarhring:

Vaxandi austan- og norðaustanátt, 15-23 m/s við suðausturströndina upp úr hádegi, en heldur hvassara í Öræfum síðdegis og víða hvassir vindstrengir við fjöll. Norðaustan 13-20 norðvestan til, en annars hægari vindur. Víða rigning, en úrkomulítið vestan til á landinu. Dregur hægt úr vindi í nótt og á morgun. Talsverð rigning austan til, þurrt að kalla vestanlands, en annars rigning með köflum. Norðaustan 8-15 annað kvöld. Hiti 0 til 8 stig, svalast inn til landsins.
Spá gerð: 09.12.2016 05:21. Gildir til: 10.12.2016 00:00.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á laugardag:
Stíf norðaustanátt og víða rigning, en þurrt og bjart suðvestan til. Lægir smám saman þegar líður á daginn og dregur úr úrkomu. Hiti 0 til 7 stig, svalast inn til landsins.

Á sunnudag:
Suðaustan 10-18 og rigning sunnan og vestan til á landinu og hiti 3 til 7 stig. Hægari og lengst af þurrt um landið norðaustanvert og hiti um og yfir frostmarki. Lægir vestan til á landinu um kvöldið.

Á mánudag og þriðjudag:
Hvöss suðlæg átt og talsverð rigning, en úrkomulítið norðan til. Hiti 0 til 8 stig.

Á miðvikudag:
Útlit fyrir suðvestlæga átt með éljum og kólnandi veðri.

Á fimmtudag:
Líkur á vaxandi norðanátt með snjókomu eða éljum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert