Tveir greindir með inflúensu

AFP
Tveir hafa greinst með inflúensu í vikunni en ekki eru merki um að inflúensufaraldur sé kominn hingað til lands. 

Alls greindust 12 með inflúensu A(H3) í september síðastliðnum, samkvæmt upplýsingum frá landlækni. Ekki sjást merki um útbreiðslu inflúensunnar í samfélaginu um þessar mundir því tiltölulega fáir einstaklingar eru að greinast með inflúensulík einkenni í heilsugæslunni.
Gera má ráð fyrir árlegri inflúensu eins og venjulega í seinni hluta desember eða janúar.

Sóttvarnalæknir keypti 65.000 skammta af inflúensubóluefni sem kláraðist snemma í haust eftir að inflúensan gerði óvænt vart við sig í september. Erfiðlega hefur gengið að fá meira bóluefni en tryggðir hafa verið 5.000 skammtar frá Finnlandi, sem verður dreift til heilsugæslunnar og verða áhættuhópar hafðir í forgangi við bólusetningu.

Nokkuð er farið að bera á inflúensu á meginlandi Evrópu og virðist hún því nokkuð fyrr á ferðinni en síðastliðin ár. Inflúensa A(H3N2) er sá stofn sem hefur oftar greinst, minna er um inflúensu A(H1N1).

Samkvæmt upplýsingum frá veirufræðideild Landspítala hefur Respiratory Syncytial-veiran (RSV) verið staðfest hjá alls sjö einstaklingum frá því í byrjun október, sem bendir til að RSV sé í einhverri dreifingu í samfélaginu.

Aukning í magakveisum

Fjöldi tilkynninga frá heilsugæslunni og bráðamóttökum um niðurgang fer vaxandi eins og venja er á þessum árstíma. Algengasta orsök meltingarfærasýkinganna er nóróveira.
Samkvæmt veirufræðideild Landspítala hafa bæði nóróveira og rótaveira greinst í saursýnum í haust.

Í október og byrjun nóvember greindust alls átta einstaklingar með rótaveiru, en síðastliðnar tvær vikur hefur hún ekki fundist í innsendum saursýnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert