Örlagaþræðir vinanna þriggja

Þóra ásamt Joy Ayurveda-lækni hjá Matt India Ayurveda-spítala hans.
Þóra ásamt Joy Ayurveda-lækni hjá Matt India Ayurveda-spítala hans. mbl.is/Kristín Heiða

Þóra Guðmundsdóttir er tveggja heima kona, hún á og rekur hótel í Cochin á Indlandi yfir vetrartímann en flytur á hverju vori í heimabæ sinn Seyðisfjörð þar sem hún rekur farfuglaheimili yfir sumarið. En hún hefði aldrei getað byggt upp hótelið sitt á Indlandi nema með hjálp tveggja góðra þarlendra vina, Faizals og Joy.

Kristín Heiða Kristinsdóttir heimsótti Þóru í Cochin og forvitnaðist um þessa „Three Amigos“ sem hafa haft mikil áhrif hver á annars líf.

Gömul hús hafa verið leiðarstef í lífi mínu, ég eltist við þau. Þessi ást á húsum dró mig hingað til Cochin sem er einstaklega fagur bær og á margt sameiginlegt með Seyðisfirði, mínum heimabæ á Íslandi. Hér er mikið af gömlum húsum, mikið listalíf, notaleg stemning og skemmtilegt mannlíf,“ segir Þóra Guðmundsdóttir sem rekur hótelið Secret Garden í Cochin í Kerala á Indlandi þegar Vetur konungur ríkir á Íslandi, en þá kemur snjóflóðahætta í veg fyrir að hún megi hafa gestahúsið sitt opið á Seyðisfirði. Leynigarðinn á Indlandi opnaði hún árið 2007.
Þóra og Faizal sem er framkvæmdastjóri hjá Secret Garden.
Þóra og Faizal sem er framkvæmdastjóri hjá Secret Garden. mbl.is/Kristín Heiða

„Ég fór strax að svipast um eftir hreiðri þegar ég flutti hingað til Cochin, enda er ég mikil hreiðurgerðarmanneskja. Fyrst ætlaði ég bara að gera lítinn nornakofa fyrir mig og ég var búin að skoða margt, en það eru engar fasteignasölur í Cochin svo maður þarf að spyrjast fyrir, þekkja mann og annan og hlusta eftir slúðri. Stórvinur minn Faizal kom inn í líf mitt á þessum tíma og hann fann hús fyrir mig. Hann var vel inni í bæjarlífinu og hleraði að gömlu hjónin sem áttu þetta hús væru að gifta dóttur sína og vildu selja. Húsið var illa farið en lóðin stór og þetta bauð upp á ýmsa möguleika. Ég var ekki nema korter að ákveða mig,“ segir Þóra sem tók tvö ár í að láta gera húsið upp og breyta því í gistihús. „Útlendingar mega ekki eignast fasteignir á Indlandi en ég lét það ekki stoppa mig og stofnaði hlutafélag með tveimur indverskum vinum mínum, fyrrnefndum Faizal og Joy, og þannig gat ég keypt húsið. Þeir lánuðu mér nöfnin sín.“

Þessir tveir vinir hennar voru árum saman einir skráðir fyrir hótelinu, en eftir áralangar lögfræðikúnstir er Þóra nú skráð fyrir meirihluta. Vinirnir tveir stóðu undir traustinu og nú hefur Joy dregið sig út en tveir íslenskir vinir hennar eignast hlut, bróðir hennar og Gummi smiður.

Joy á Íslandi með Vilhjálmi Jónssyni Indlandsfara, hér eru þeir …
Joy á Íslandi með Vilhjálmi Jónssyni Indlandsfara, hér eru þeir í Dyrfjöllum um verslunarmannahelgina 2005.

Bláfátækur fjölskyldufaðir

„Samband okkar Faizals er örlagaþrungið og líf okkar beggja hefur breyst mikið frá því við sáumst fyrst. Þegar ég kynntist honum var hann bláfátækur fjölskyldufaðir en núna er hann framkvæmdastjóri á Secret Garden, hann er allt í öllu þar. Leiðir okkar lágu fyrst saman þegar ég var stödd hér í Cochin til að kaupa húsgögn og innanstokksmuni til að innrétta Ölduna, hótel á Seyðisfirði. Ég týndi símanum mínum í „rickshaw“ hans, en hann var mér þá alls ókunnur bílstjóri á slíku þríhjóli. Hann hafði mikið fyrir því að hafa uppi á mér til að skila símanum og það sýndi mér hversu strangheiðarlegur hann er,“ segir Þóra og bætir við að hún hafi spurt Faizal þegar hann skilaði símanum hvort hann væri laus daginn eftir, til að vera henni innanhandar í útréttingunum.

„Ég þurfti að hafa heimamann með mér sem þekkti borgina eins og lófann á sér. Við keyrðum saman allan þennan dag og í framhaldinu sömdum við um að hittast á hverjum morgni og hann færi með mig á alla þá staði sem ég þurfti. Þetta gekk mjög vel og þarna komst ég að því að hann var fullkominn reddari og pottþéttur náungi.“

Þóra kíkir út um glugga á íbúð sinni á hótelinu …
Þóra kíkir út um glugga á íbúð sinni á hótelinu Secret Garden, en þangað hafa margir Íslendingar komið. mbl.is/Kristín Heiða

Gaman að skapa fegurð

Þóra fór heim til Íslands með húsgögnin en næst þegar hún kom til Indlands var hennar fyrsta verk að hafa samband við Faizal og kaupa með honum nýjan „rickshaw“. „Það myndaðist strax traust á milli okkar og hann skírði farartækið Hafölduna, eftir farfuglaheimilinu mínu á Seyðisfirði,“ segir Þóra og hlær að minningunni. „Við brölluðum ýmislegt saman, létum til dæmis einn veturinn smíða og sauma mongólskt „GER“ eða tjald, sem ég flutti heim á Seyðisfjörð. En svo kom þetta stóra verkefni, að kaupa húsið, sem var í raun tvö hús, og breyta því í gistiheimili. Fyrst voru aðeins fjögur gistiherbergi en nú eru þau orðin níu. Við gjörbreyttum húsinu og endurbyggðum og erum í dag búin að bæta við tveimur nýjum húsum á lóðina. Það er gaman að fá að skapa þessa fegurð með öllu þessu dásamlega fólki, en handverkið lifir góðu lífi hér á Indlandi. Ég fór alveg inn í hefðina, ég var ekkert að flíka mínum evrópsku eða módernísku hugmyndum, ég vildi vera trú uppruna hússins sem er hundrað ára gamalt og byggt í breskum nýlendustíl.“

Gestum Secret Garden er boðið upp á jóga í garðinum …
Gestum Secret Garden er boðið upp á jóga í garðinum undir mangótré. mbl.is/Kristín Heiða

Miklu meira en bara hótel

Þóra segist njóta þess að geta deilt þessari fegurð með öllum þeim gestum sem koma til að gista á Secret Garden.

„Hingað hafa komið margir Íslendingar, sérstaklega konur. Ég er fólki innanhandar og það sparar því tíma og peninga, því það er gott að hafa heimamanneskju sem þekkir til hlutanna. Cochin hefur upp á margt að bjóða og það er gaman að þvælast um þetta völundarhús sem gatnakerfið er og svo er hægt að fara í allskonar ferðir, upp til fjalla og niður að strönd eða gista á húsbátum á miklu kanala-kerfi sem heimamenn kalla „The Backwaters“. Mér finnst skemmtilegast að fá íslenska gesti á hótelið mitt, en ég fæ líka fólk frá öllum löndum veraldar. Margir koma aftur og aftur og þá verður þetta miklu meira en bara hótel. Og nú hef ég leigt lítið hús hér við hliðina sem ég kalla Grímsbæ, eftir Hallgrími frænda mínum Helgasyni sem dvaldi þar fyrstur við skriftir í fyrra, en listafólki stendur til boða að leigja það til lengri tíma, í mánuð eða fleiri í senn, til að skrifa, mála eða sinna hverju því sem það fæst við. Það er gaman að hafa fólk svona lengi, þá verður það heimilisfólk og vinir manns.“

Olíubað. Ein margra aðferða í Ayurvedameðferð hjá Joy á Matt …
Olíubað. Ein margra aðferða í Ayurvedameðferð hjá Joy á Matt India. mbl.is/Kristín Heiða

Bæði innri og ytri hreinsun

Samband Þóru og Faizals hefur eflst með árunum, hann var byggingastjóri þegar þau endurbyggðu húsin í Secret Garden og núna sér hann um allt og reddar öllu sem framkvæmdastjóri hótelsins. „Hann er líka besti vinur minn og okkar Þórbergs mannsins míns, sem kemur reglulega hingað í heimsókn til Indlands. Þeir tveir ná vel saman og við erum gott tríó,“ segir Þóra og bætir við að Faizal hafi komið tvisvar með henni til Íslands.

„Hann elskar Seyðisfjörð og við fórum með honum í bláberjamó, sigldum með honum á Jökulsárlóni og ferðuðumst víðsvegar um landið. Það er gaman að deila Íslandi með honum því hann hefur verið minn leiðsögumaður á Indlandi.“

Þóra hefur einnig boðið hinum indverska vini sínum til Íslands, fyrrnefndum Joy, sem er Ayurvedalæknir, og þá bauð hann Seyðfirðingum upp á Ayurvedanudd.

„Joy rak klínik hér í nágrenninu og ég byrjaði á því á hverju hausti þegar ég kom til Indlands að fara í meðferð hjá honum. Ég fór daglega til hans í nudd og hreinsunarmeðferð. Ég flutti líka eina af starfsstúlkunum hans með mér heim til Seyðisfjarðar til að starfa þar um tíma sem nuddari. Hún býr núna á Egilsstöðum.“

Þóra segir að Ayurveda merki lífsins vísindi. „Þetta eru heildræn heilsuvísindi með rætur í hindúisma en hindúismi eru merkileg trúarbrögð því þau flétta saman svo mörgum þáttum mannlífsins. Við erum fordómafull, Vesturlandabúar, gagnvart hindúisma en hér í Cochin lifa saman í sátt múslimar, kristnir og hindúar. Á sama torgi getur verið moska, hof og kirkja. Yfirleitt er mikið þolgæði gagnvart ólíkum skoðunum hérna. En samt er margt sem erfitt er að átta sig á, ég skil í raun minna eftir því sem ég er lengur hérna.“

Þóra Guðmundsdóttir í hóteli sínu í Cochin á Indlandi.
Þóra Guðmundsdóttir í hóteli sínu í Cochin á Indlandi.

Þóra segir að Joy hafi stofnað Ayurveda-spítala úti í sveit í nágrenni Cochin og þangað hafi margir Íslendingar komið til heilsumeðferðar. „Þarna geta þrjátíu til fjörutíu manns verið í einu í meðferð sem felst í hverskyns innri og ytri hreinsun. Maður er nuddaður bæði með höndum og fótum, baðaður upp úr heitum olíum, bankaður með jurtakólfum og nærður á heilsusamlegu grænmetisfæði. Þeir sem þangað fara koma aftur og aftur. Ég fór í fyrsta sinn núna í haust og það var frábært að vera þarna í sveitinni í þessari meðferð. Joy lagar fólk, ég laga hús og Fazial reddar öllu sem þarf að redda,“ segir Þóra um vináttu þeirra þriggja, hennar, Faizals og Joy.

Lenti í hremmingum í hernum

Saga vinar Þóru, ayurveda-læknisins Joy, er nokkuð merkileg, hann hefur marga fjöruna sopið og lagt sitt af mörkum til að hjálpa fólki í sveitaþorpinu Ezhupunna þar sem hann sleit barnsskónum. Hann ólst upp í stórri fjölskyldu meðal sjö systkina og þegar hann var ungur maður gekk hann í herinn.
„Ég var ánægður með það nýja starf og að geta unnið fyrir launum til að hjálpa fjölskyldu minni. Ég gat þá tekið við stöðu eldri bróður míns, sem hafði fram að því unnið fyrir stórfjölskyldunni, en hann hafði nýlega gengið í hjónaband. Þegar ég var 22 ára var ég sendur á vegum hersins á afar afskekktan stað á Norðaustur-Indlandi við landamæri Kasmír og Kína. Við vorum fjórtán hermenn saman sem sinntum landamæravörslu og við höfðumst við í neðanjarðarbyrgi. Þetta var mjög erfiður tími og hrikalegar aðstæður, mikil einangrun. Við áttum að fá að fara heim áður en það færi að snjóa þarna í fjöllunum en til að komast heim áttum við að fara fótgangandi í hálfan mánuð í gegnum frumskóginn. En við komumst ekki því það varð ófært þegar fór að snjóa um miðjan nóvember og þarna eru engir vegir til að ganga eftir. Við vorum því fastir í óbyggðum bjargarlausir og allar matarbirgðir á þrotum. Við áttum engan mat fram í mars, í fjóra mánuði. Það var jökulkalt og við fórum út í frumskóg og veiddum villta fugla til að hafa eitthvað í magann. Við grófum niður á trjárætur í snjónum til að nota sem eldivið. Við vorum sem betur fer með eina geit og nýttum mjólkina úr henni til matar. Þrír menn úr okkar hópi dóu á þessu tímabili, þeir voru teknir af kínverskum aðilum við landamærin og drepnir. Þeim var skilað til okkar sem liðnum líkum.“
Vistarverur í hóteli Þóru í Cochin í Indlandi.
Vistarverur í hóteli Þóru í Cochin í Indlandi.

Þetta var árið 1981 og mennirnir komust við illan leik heim um vorið en voru aðframkomnir eftir langtíma hungur og vetursetu í ísköldu neðanjarðarbyrgi. Þeir voru fluttir á spítala og Joy fór í aðgerð og var ófær um erfiðisvinnu, en fékk starf við skráningu hjá hernum.

„Eftir það fór ég til Cochin þar sem bróðir minn starfaði sem biskup hjá kirkjunni og þar líka þýskur maður, Bush, og okkur varð vel til vina. Hann bauð mér að fara til Þýskalands svo ég gæti lært þýsku og ég safnaði fyrir farareyri með því að selja póstkort með myndum eftir mig og ég vann líka við að mála leikmyndir. Ég lærði ayurveda-fræði í Þýskalandi en ég settist líka á skólabekk í grunnskóla og foreldrar samnemenda minna stofnuðu sjóð til að hjálpa fólki á Indlandi og ég gat sett á laggirnar félagslegt verkefni í heimaþorpi mínu. Það snerist um að kenna fólki að þekkja réttindi sín og skyldur, og við kenndum teppagerð og fleira svo að fólk gæti bjargað sér. Ég stofnaði framfarafélag fyrir heimaþorp mitt og kvöldskóla fyrir húsmæður til að læra um heilsu, stjórnmál og annað hagkvæmt, til að gera þær færari í lífinu.“

Joy opnaði nuddstofu í Cochin og þar hitti hann Þóru og hún kom með viðskiptavini til hans. „Hún bauð mér í heimsókn til Seyðisfjarðar í mánuð og ég opnaði litla nuddstofu á gamla spítalanum þar. Þegar ég kom til baka til Indlands opnaði ég Ayurvedaspítalann, Matt India, í heimahéraði mínu. Hingað koma bæði Indverjar og fólk frá öðrum löndum, og margir Íslendingar. Færri komast að en vilja.“
Vefsíða: secretgarden.in Facebook: Secret Garden Heritage Hotel, Fort Cochin, Kerala Vefsíða Ayurveda spítalans: www.mattindia.com
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert