Styttra til Sjálfstæðisflokksins en Viðreisnar

Björn Valur Gíslason, varaformaður VG.
Björn Valur Gíslason, varaformaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Ég myndi auðvitað vilja sjá ríkisstjórn þar sem vægi Vinst rigrænna væri sem mest,“ sagði Björn Valur Gíslason, varaformaður Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, í þættinum Vikulokin á Rás 1 í morgun. Sagðist hann telja að VG ætti að vera í ríkisstjórn sem annar stærsti stjórnmálaflokkurinn á Alþingi.

Ef flokkurinn yrði ekki í ríkisstjórn væri hinn möguleikinn öflug hægristjórn. Tvennt væri í boði eins og staðan væri í dag, fimm flokka stjórn sem viðræður stæðu yfir um eða stjórn sem mynduð væri af Sjálfstæðisflokknum ásamt einhverjum öðrum flokkum.

„Það er ekki góður kostur ef hægriflokkarnir á þingi læsa sig saman. Það yrði þá öflugri og meiri hægristjórn heldur en við höfum áður þekkt hér á landi. Ég vil ekki sjá það gerast. Ég vil frekar að Vinstri græn fari þá í stjórn með einhverjum þessara hægriflokka,“ sagði Björn Valur.

Mikið rætt um samstarf VG og Sjálfstæðisflokksins 

Spurður hvort hann gæti hugsað sér stjórnarsamstarf VG og Sjálfstæðisflokksins sagði Björn Valur að sumir töluðu fyrir því og hann hefði mikið orðið var við það í sínu kjördæmi, Norðausturkjördæmi, og víðar á landsbyggðinni. Fólk væri talsvert spennt fyrir því að mynduð yrði ríkisstjórn sem næði frá báðum endum.

Björn Valur sagði að fólk sæi þar ákveðna snertifleti í málefnum sem tengdust landsbyggðinni. Til að mynda í sjávarútvegi, landbúnaði og samgöngumálum. Þar væru snertifletir. Fyrir vikið ætti að vera auðveldara að ná saman við Sjálfstæðisflokkinn í þeim efnum en til að mynda Viðreisn eða Bjarta framtíð.

Hins vegar væri langt á milli til að mynda í efnahagsmálunum. En það ætti reyndar við um fleiri flokka eins og Viðreisn. „Þannig að ég vil ekki útiloka neitt,“ sagði Björn Valur. „Úrslit kosninganna voru bara þannig að við getum ekkert leyft okkur það að útiloka nokkurn skapaðan hlut. Við þurfum bara að leysa úr þessum verkefnum sem okkur var falið og það þýðir að allir þurfa að gefa eitthvað eftir.“

Liggur beint við að stóru flokkarnir ræði saman

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður og ritari Sjálfstæðisflokksins, fagnaði því að Björn Valur skyldi ekki útiloka neinn möguleika í stöðunni. Spurð hvort samstarf VG og Sjálfstæðisflokksins kæmi til greina svaraði hún því játandi.

„Auðvitað liggur það frekar beint við að stærstu tveir flokkarnir tali saman eftir niðurstöður kosninga og manni finnst frekar eðlilegt að þeir geri það og reyni að finna einhvern samstarfsgrundvöll og finni síðan þriðja og jafnvel fjórða flokkinn með sér í það.“

Spurð hvort hún teldi að flokkarnir gætu samið um samstarf sagðist hún telja það. Eins gæti Sjálfstæðisflokkurinn myndað stjórn með Viðreisn og Bjartri framtíð þótt sú stjórn myndi vitanlega hafa nokkuð tæpan meirihluta á þingi.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert