Takk fyrir síðast hvað?

Albert Eiríksson.
Albert Eiríksson. Styrmir Kári

Erlendur ferðamaður spurði á vefsíðu nokkurri hverjir væru óvenjulegir siðir Íslendinga. Meðal þess sem honum var ráðlagt var að sjúga frekar upp í nefið en snýta sér og muna að fara úr skónum áður en hann gengi inn á heimili. Það þættu mannasiðir á Íslandi þótt það væru ósiðir annars staðar. Sunnudagsblað Morgunblaðsins fór á stúfana og í grein sem birtist í blaðinu um helgina er fjallað um eldri og nýrri ósiði en meðal þeirra sem spjallað er við er Albert Eiríksson sem er sérlegur áhugamaður um góða og vonda siði og hefur spjallað við fólk hvaðanæva úr heiminum um hérlenda mannasiði í gegnum tíðina.

„Í gegnum störf mín í ferðamálum og í spjalli við leiðsögumenn fæ ég gjarnan að heyra hvar við gætum bætt okkur,“ segir Albert og bætir við að svo virðist sem Íslendingar hafi stórbætt sig í mannasiðum allra síðustu árin og það heyri hann á þeim sem hafi ferðast hingað reglulega í gegnum árin.

„En. Það er alltaf þetta en. Og þar fer fremst ýmislegt tengt borðhaldi. Eins og að teygja sig eftir matnum og meðlætinu í staðinn fyrir að láta rétta sér fötin. Það vekur athygli margra þegar við förum að teygja okkur langt yfir diska og glös annarra. Þá finnst mörgum mjög einkennilegt að sjá okkur stanga úr tönnunum að máltíð lokinni, fyrir framan alla. Og hvað við borðum rosalega hratt – skóflum upp í okkur matnum eins og við séum að bjarga verðmætum því við séum að drífa okkur í heyskapinn. Svo tölum við enn þá með fullan munninn og það er kannski hluti af því að vera að reyna að ljúka þessu af á sem skemmstum tíma. Það er líka tekið eftir því að við stingum oft hnífnum upp í okkur, það þykir svolítið skrýtið.“

Þá er það að vera boðið í matarboð.

„Margir útlendingar sem hafa búið hérna lengi tala um að fyrir nokkrum árum var ekki endilega almennt að Íslendingar kæmu með eitthvað með sér eins og nú þykir sjálfsagt; vínflösku, blóm eða annað.

Þá þykir mörgum einkennilegt að sjá fólk standa upp frá borðum, áður en allir eru búnir að borða, og hver og einn setur sinn disk í vaskinn þannig að að lokum eru bara einn eða tveir eftir við matarborðið. Þá er það séríslenskt að segja „takk fyrir mig“.“

Að redda sér sjálfur og fá sér óboðinn meira á diskinn í matarboðum er eitthvað sem nágrannaþjóðir okkar eru oft hissa á og að við klórum okkur í hausnum og á hinum ýmsu stöðum meðan á borðhaldi stendur.

„Við erum þá ekkert rosalega dugleg að segja fyrirgefðu ef við rekumst utan í einhvern í verslun og þessi hefð að við skulum sí og æ vera að segja „takk fyrir síðast“ þykir spes. Margir skilja ekki tilganginn. Af hverju þarf að þakka fyrir eitthvað síðast og síðast hvað?“ segir Albert.

Engar afsökunarbeiðnir

Þórdís Gísladóttir.
Þórdís Gísladóttir. Árni Sæberg

Þórdís Gísladóttir rithöfundur hefur sterk tengsl við Svíþjóð eftir að hafa verið þar í námi og búið og segir að skipulagsleysi Íslendinga komi Svíum oft furðulega fyrir sjónir.
Fyrir utan skipulagsskort Íslendinga og skort á rútínu almennt segir hún að Svíar eigi ekki að venjast því að svo mikið sé gripið fram í fyrir öðrum.

„Í minni fjölskyldu gjamma allir út í eitt en Svíar gera það ekki. Og svo er miklu minna mál á Íslandi að mæta allt of seint. Það gera sænskir vinir mínir miklu síður. Ég fékk til dæmis afsökunarbeiðni frá sænskum lækni sem lét mig sitja í 20 mínútur á biðstofunni. Hann sagði mér meira að segja hvað hefði tafið hann og hafði góða afsökun. Sé það ekki alveg gerast á Íslandi,“ segir Þórdís.

Þá segist Birna Anna Björnsdóttir, rithöfundur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Suðvestur, lengi hafa varað bandaríska vini og kunningja sem heimsækja Ísland við einu áður en þeir halda af

Birna Anna Björnsdóttir.
Birna Anna Björnsdóttir.

stað og það er að láta sér ekki bregða þó að fólk rekist í það og biðjist ekki afsökunar. Birna Anna hefur lengi verið búsett í Bandaríkjunum og ólst þar einnig upp að hluta og þarlendis sé það algjör dauðasynd að biðjast ekki afsökunar á því að rekast utan í fólk.

„Ef þú rekst í einhvern hér, eða ef þú svo mikið sem heldur að þú hafir rekist í einhvern, nú og jafnvel ef einhver rekst í þig, þá biðst þú auðmjúklega afsökunar, og meinar það. Engar undantekningar. Ég hef séð eitruðustu augnaráð ævi minnar þegar ég hef lent í árekstri við einhvern á gangstétt og ekki náð að afsaka mig nægilega hátt og snjallt í tæka tíð. Á Íslandi rekst fólk í mann og annan endalaust og ýmist tekur ekki eftir því eða lítur flóttalega undan. Þetta finnst útlendingum óskiljanlegt.“

Miðlungi kúltíveruð

Arthúr Björgvin Bollason, heimspekingur, rithöfundur og þýðandi, hefur í mörg ár verið með meira en annan fótinn í Þýskalandi þar sem hann hefur meðal annars unnið óþreytandi starf við að kynna Þjóðverjum Ísland.

„Af tali þeirra Þjóðverja sem ég hef hitt og verið hafa á Íslandi má almennt ráða að þeir líti á okkur sem miðlungi „kúltíveraða“ þjóð sem enn beri skýran svip af hátterni forfeðranna er höfðust við í misvistlegum moldarkofum allt fram á síðustu öld. Og það er einmitt þetta frumstæða yfirbragð, í bland við þann frumstæða og óbeislaða kraft sem því fylgir, sem heillar marga Þjóðverja þegar þeir kynnast Íslendingum,“ segir Arthúr Björgvin.

Arthúr Björgvin Bollason.
Arthúr Björgvin Bollason. .

„Það er þetta frumstæða afl, þessi „ó-siðvæddi“ þáttur í hugsun, sálarlífi og breytni landans sem mörgum siðvæddum og regluföstum Þjóðverjum þykir afar heillandi,“ segir Arthúr Björgvin og bætir við að þannig vilji Þjóðverjar líka skýra þann mikla skapandi kraft sem þeim finnst Íslendingar búa yfir í meira mæli en íbúar landa þar sem mannlífið er í fastari skorðum.

Eitt af því sem Þjóðverjar taka gjarnan eftir er umferðarmenning Íslendinga.

„Það þekkja þeir sem hafa um árabil þanið blikkfákana á hraðbrautum Þýskalands að þar gildir að haga sér eftir öllum settum reglum. Minnsta frávik frá þeirri hegðan getur endað með skelfingu. Þegar menn fara að keyra á Íslandi komast þeir hins vegar fljótt að því að þar getur beinlínis verið hættulegt að halda sig of stíft við umferðarreglurnar. Þvert á móti þurfa menn að vera sífellt á verði fyrir því að aðrir þátttakendur í umferðinni „svíni“ á þeim. Að ekki sé minnst á ljóslausa og hjálmlausa hjólreiðamenn sem skjótast á milli bíla eins og léttstígar hulduverur í vetrarmyrkrinu.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert