Fleira þarf í dansinn en fagra skóna

Lilja á æfingu ásamt félaga sínum Nathan Makolandra. Henni leiðist …
Lilja á æfingu ásamt félaga sínum Nathan Makolandra. Henni leiðist aldrei í vinnunni. Ljósmynd/Steve Lucero

Dansarinn Lilja Rúriksdóttir er útskrifuð frá dansdeild The Juilliard School í New York og starfar nú með danshópnum L.A. Dance Project í Los Angeles undir stjórn Benjamins Millepied, eins virtasta danshöfundar samtímans.

Lilja Rúriksdóttir er 25 ára dansari sem hefur dansað stanslaust í 22 ár. Þriggja ára byrjaði hún í Dansskóla Eddu Scheving, fór síðan í Listdansskóla Íslands og 17 ára var hún komin í dansmenntaskólann Joffrey Ballet School á Manhattan, þar sem hún var í eitt ár.

„Þegar ég var í þeim skóla var ég alveg á báðum áttum hvort ég vildi verða dansari, því mér leist ekkert á ballettinn þar, mér fannst hann svo stífur. Ég ákvað því að fara í inntökuprófin í Juilliard, og ef ég hefði ekki komist inn, hefði ég bara farið heim og klárað MH sem ég var byrjuð á,“ segir Lilja sem varð að vonum himinlifandi þegar hún komst inn, enda þykir Juilliard einn besti dansskóli í Bandaríkjunum og þótt víðar væri leitað.

Kynntist eiginmanninum í skólanum

„Námið í Juilliard var miklu fjölbreyttara svo það hentaði mér miklu betur, meðal annars vegna þess að ég var farin að hafa áhuga á nútímadansi, svo lærðum við líka söng og leiklist, sem var mjög gaman. Eins erfiður og skólinn var, var miklu meira frelsi í honum t.d. til að skapa og ég var mikið í að semja dansa,“ segir Lilja sem útskrifaðist frá Juilliard sem dansari með BFA árið 2013.

Í Juilliard kynntist Lilja eiginmanni sínum Aaron Moten, en hann var í leiklistardeildinni og einmitt í sama bekk og Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari.

„Dansararnir og leikararnir eru á sömu hæð í skólanum svo við kynntumst bara á ganginum þar,“ segir Lilja brosandi við tilhugsunina.

Eftir námið vann Lilja sem lausráðinn dansari í New York og var svo heppin að fá alltaf dansverkefni. Aaron náði líka að vinna fyrir sér sem leikari, bæði í leiksýningum Off-Broadway og sjónvarpsþáttaröðum. Hann var meðal þeirra fyrstu sem léku hlutverk Avery í leikritinu The Flick, eða Ræmunni, sem nú er verið að sýna í Borgarleikhúsinu.

Skólasystir mælti með Lilju

Í september 2015 var Lilja svo valin inn í dansaflokkinn L.A. Dance Project sem franski dansarinn og danshöfundurinn Benjamin Millepied stofnaði árið 2012. Margir muna eftir honum úr kvikmyndinni Black Swan eftir Darren Aronofsky, en þar kynnist hann einmitt eiginkonu sinni, leikkonunni Natalie Portman. Lilja segir Natalie koma af og til að horfa á þau dansa og að hún sé yndisleg og falleg manneskja í alla staði.

„Þegar ég var tekin inn í flokkinn var bara ein stelpa í honum sem hafði verið með mér í Juilliard og hún mælti með mér við Benjamin. Ég flaug til Los Angeles um sumarið og var í prufum í þrjá daga, tók danstíma og lærði dansverk. Þremur vikum síðar var hringt í mig og mér tilkynnt að ég hefði komist inn!“ segir Lilja glöð.

Dansararnir í flokknum eru alls níu og eru allir hinir bandarískir nema ein er frá Kanada.

„Sjö okkar eru úr Juilliard og við þekkjumst því og vinnum mjög vel saman. Við erum með svipaða þjálfun og „tölum sama tungumálið“. Benjamin er mjög hrifinn af Juilliard-dönsurnum því honum finnst þeir mjög fjölbreyttir.

Að komast inn í þennan virta hóp er það besta sem ég gæti óskað mér sem dansari í þessu landi. Mig langaði í fasta vinnu, það er erfitt að vera lengi lausráðin auk þess sem Aaron langaði að flytja til Los Angeles og ég vildi auðvitað vera með manninum mínum. Svo þetta var fullkomið!“

Tæknilega krefjandi verk

„Hann er alltaf rosalega upptekinn, vill sífellt gera meira og hafa meiri áhrif,“ segir Lilja aðspurð hvernig sé að vinna með svona snillingi. „Undanfarið höfum við verið að vinna saman í Los Angeles og í París. Við byrjuðum á nýja verkinu hans On the Other Side núna í vor í París. Hann vinnur alveg rosalega hratt. Hann mætir á svæðið og er á fullu þangað til hann segir allt í einu: þetta er orðið gott! Hann er mjög músíkalskur og vinnur mjög vel með tónlistina sem er mikill innblástur fyrir mig. Um leið er stressandi hvað hann vinnur hratt og það tók mig vissan tíma að venjast því. Það þýðir ekkert að vera slappur á æfingum hjá honum!“

Hópurinn frumsýndi nýja verkið í London í júní og Lilja segir að það sé tæknilega klassískt og samið við ýmsar etýður með Philip Glass.

„Þetta verk er mjög krefjandi tæknilega. Ég er t.d. með mjög hratt sóló og ég hef aldrei dansað svona hratt,“ segir Lilja og hlær, „ég er frekar lýrískur dansari. Ég hélt að hann væri að grínast að láta mig fá þetta sóló. En það er gaman að gera hluti sem ég er ekki vön að gera, í staðinn fyrir að vera alltaf látin gera það sem ég er best í.“

Er með vissa heimþrá

„Flokkurinn er alltaf á ferðalagi helminginn af árinu og við verðum það áfram á nýja árinu. Það getur verið erfitt að vera í burtu frá manninum mínum og fjölskyldu þótt það sé gaman að ferðast. En mér finnst mjög erfitt að fljúga til Parísar frá L.A. og fara svo strax að sýna, maður er alveg ruglaður af flugþreytu.

Benjamin hefur talað um að gera meira fyrir framan myndvélina, en hann leikstýrir auglýsingum og dansstuttmyndum og mér finnst það mjög skemmtileg vinna. Þá er maður ekki í því að „brjóta fjórða vegginn“, þ.e. ná til áhorfendanna, heldur er það mun persónulegri dansreynsla,“ segir Lilja.

Þegar blaðamaður spyr hvort ekki sé upplagt að danshópurinn komi á Menningarhátíð Reykjavíkur, svarar hún:

„Jú, það yrði æðislegt! Ég þarf að spyrja Benjamin hvort hann hafi ekki áreiðanlega áhuga á því að koma til Íslands. Það hlýtur að vera“, segir Lilja og viðurkennir að hún geti ekki beðið eftir að gera meira heima á Íslandi. „Ég er með vissa heimþrá, mig klæjar í lófana að fá að vinna þar.“

Dreymir um að skapa

Lilja segist sjá fyrir sér að búa áfram í Los Angeles.

„Ekki síst vegna þess að manninum mínum gengur mjög vel núna. Við verðum alla vega með annan fótinn hér og kannski hinn á Íslandi. Sjáum til. Mig dreymir um að vera með minn eigin flokk einhvern tímann á Íslandi, og vera þá að skapa á fullu sem danshöfundur. Ég gerði mikið af því í skólanum og hef saknað þess síðan ég útskrifaðist. Ég fékk rosalega mikið út úr því,“ segir Lilja sem vann mikið með tónskáldadeild skólans. „Þá var ekkert endilega tónlistin sem kom fyrst, heldur kom hún eftir á og stundum samtímis með tónskáldi,“ segir Lilja og viðurkennir að hún sé frekar óþolinmóð að sjá alla draumana sína rætast.

„Ég er samt mjög glöð að vera þar sem ég er. Þetta er eitthvað sem ég get ekki gert seinna á ævinni,“ segir Lilja Rúriksdóttir sem á framtíðina fyrir sér.

Heimasíða: ladanceproject.com Instragram: @ladanceproject facebook: L.A. Dance Project
Brosmildur danshópurinn hennar Lilju eftir vel heppnaða sýningu á dögunum. …
Brosmildur danshópurinn hennar Lilju eftir vel heppnaða sýningu á dögunum. Lilja er fjórða frá hægri.
Lilja er í draumavinnunni í bandaríska dansheiminum.
Lilja er í draumavinnunni í bandaríska dansheiminum. Ljósmynd/Morgan Lug
Lilja í hlutverki sínu í On the Other Side, nýjasta …
Lilja í hlutverki sínu í On the Other Side, nýjasta dansverki Benjamins Millepied, sem frumsýnt var í London í vor. Ljósmynd Ljósmynd/Laurent Philippe
Lilja og Aaron eru að gera það gott í Englaborginni.
Lilja og Aaron eru að gera það gott í Englaborginni.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert