Slökkt var á símanum handvirkt

Lög­regl­an hélt blaðamanna­fund vegna leit­ar­inn­ar á lög­reglu­stöðinni við Hverf­is­götu.
Lög­regl­an hélt blaðamanna­fund vegna leit­ar­inn­ar á lög­reglu­stöðinni við Hverf­is­götu. mbl.is/Golli

Mál Birnu Brjánsdóttur sem leitað hefur verið síðan á laugardagskvöld er ekki rannsakað sem sakamál heldur mannshvarf. Engar staðfestar vísbendingar eru um að refsiverð háttsemi hafi átt sér stað, en þegar svona langur tími er liðinn síðan síðast spurðist til hennar vakna spurningar og lögreglan leggur þess vegna mikla áherslu á að finna hana. Þetta kom fram á fréttamannafundi lögreglunnar í dag.

Enn hefur Kia Rio-bifreiðin sem lögreglan lýsti eftir ekki fundist, en Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni, segir að lögreglan vilji ná tali af ökumanni hennar, en að ekkert bendi þó til þess að hann sé grunaður um saknæmt athæfi. Hann gæti aftur á móti verið vitni að því þegar Birna sást síðast rétt fyrir neðan Laugaveg 31 aðfaranótt laugardagsins.

Móðir Birnu ræddi við fréttamenn eftir fundinn og sagði hún þá að meðal þess sem aðstandendum hefði dottið í hug væri að hún hefði rætt við erlenda ferðamenn, en hún hefur verið dugleg að kynnast ferðamönnum undanfarið. Sagði hún að nýlega hefði Birna skráð sig aftur á Tinder-samskiptaforritið eftir sambandsslit, en það er notað fyrir fólk til að kynnast.

Lögreglan hefur fengið aðgang að Facebook-svæði Birnu og sagði Grímur að ekkert benti til þess að hún hafi ætlað að mæla sér mót við annað fólk í gegnum það forrit. Síðustu samskipti hennar á Facebook hafi verið á fimmtudaginn. Aftur á móti hefur lögreglan ekki fengið aðgang að öðrum samskiptamiðlum sem hún notar.

Leitarhundar voru notaðir við leitina í gærkvöldi. Þeir týndu þó slóðinni við Laugaveg 31 og því hefur lögreglan haft augastað á þeirri staðsetningu.

Eins og greint hefur verið frá barst merki frá síma Birnu sem talið er að hafi verið í Flatahrauni í Hafnarfirði. Hefur meðal annars verið leitað þar í dag. Sagði lögreglan að þar hefði handvirkt verið slökkt á símanum, en hann ekki orðið rafmagnslaus.

Í dag var svo þyrla gæslunnar send í loftið til að leita við Heiðmörk, en á fundinum kom fram að það hefðu aðallega verið farsímasendar sem miða í austurátt sem hafi numið samband símans. Því hafi komið upp sú kenning að sá bíll sem sími hennar var í gæti hafa farið út af Reykjanesbrautinni upp í Heiðmörk, svokallaða flóttamannaleið.

Þegar lögreglan var spurð hvort fordæmi væru fyrir svona málum sagði Grímur að auðvitað hefðu komið upp mannshvörf, en það væri oftast ekki með jafnfáum vísbendingum.

Lögreglan sagði að Birna hefði verið í stöðugu ástandi undanfarið samkvæmt fjölskyldu og vinum og að ekkert benti til þess að hún hafi verið í sjálfsmorðshugleiðingum. Spurt var út í samskipti hennar á samfélagsmiðlum, en bæði lögregla og móðir sögðu að Birna hefði haft mjög svartan húmor og öll samskipti hennar þyrfti að skoða í því ljósi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert