Skór fannst í nágrenni Hafnarfjarðar

Björgunarsveitarmenn hafa meðal annars leitað í Heiðmörk, þar sem þessi …
Björgunarsveitarmenn hafa meðal annars leitað í Heiðmörk, þar sem þessi mynd var tekin fyrr í kvöld. mbl.is/Golli

Svartur skór af gerðinni Dr. Martens fannst í eða við Hafnarfjörð í kvöld, en þar hafa sjálfboðaliðar tekið þátt í að leita að Birnu Brjánsdóttur, sem hefur verið saknað frá því aðfaranótt laugardags. Ekki hefur verið staðfest hvort skórinn sé í eigu Birnu, en í lýsingu lögreglu var hún klædd í slíka skó þegar hún sást síðast.

RÚV og Stundin greindu frá þessu, en myndin birtist fyrst á Facebook-síðu sem er tileinkuð leitinni að Birnu. Búið er að fjarlægja myndina og færsluna, og þá hefur RÚV fjarlægt myndina af skónum sem fylgdi upphaflegu fréttinni, sem og Stundin.

Fjölmenni, m.a. björgunarsveitir og almenningur, hefur leitað að Birnu í gær [mánudag] og í kvöld. 

Lögreglan hélt blaðamannafund þar sem farið var yfir málið með …
Lögreglan hélt blaðamannafund þar sem farið var yfir málið með fjölmiðlum. mbl.is/Golli

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt blaðamannafund þar sem fjölmiðlum gafst kostur á að spyrja spurninga í tengslum við rannsókn málsins. Þá lá ekkert fyrir hvar Birna væri niðurkomin. Í kjölfarið birti lögreglan myndskeið úr eftirlitsmyndavélum sem sýna Birnu ganga eftir Austurstræti, upp Bankastræti og eftir Laugavegi. 

Lögreglan hefur biðlað til almennings að hafa samband hafi hann upplýsingar sem geti nýst við leitina. Hægt er að hafa samband í síma 444-1000, senda tölvupóst á netfangið abending@lrh.is eða einkaskilaboð á Facebook-síðu lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Hér fyrir neðan má sjá myndskeiðið sem lögreglan hefur birt í von um að almenningur geti veitt henni frekari upplýsingar og aðstoðað við rannsókn málsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert