Enginn enn verið handtekinn

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. Grímur segir …
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn og Sigríður Björk Guðjónsdóttir lögreglustjóri. Grímur segir engan hafa enn verið handtekinn í tengslum við leitina. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Enginn hefur verið handtekinn í tengslum við leitina að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur spurst til frá því aðfaranótt laugardags. Þetta staðfesti Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn í samtali við mbl.is nú undir miðnætti.

„Það hefur enginn verið handtekinn og það hefur heldur enginn verið yfirheyrður með réttarstöðu grunaðs manns,“ sagði Grímur.

Samkvæmt heimildum mbl.is fóru fjórir lögreglumenn með þyrlu Landhelgisgæslunnar út í danska varðskipið Triton nú í kvöld. Triton er nú á leið til móts við grænlenska skipið Polar Nanoq sem snúið var aftur til Íslands, af leið sinni til Grænlands.

Á myndbandi sem sýnir för Birnu upp Laugaveginn, sem lögregla birti í gær, sást hún rekast utan í tvo menn. Lögregla hafði beðið mennina um að gefa sig fram, en að sögn Gríms hafa þeir ekki enn sett sig í samband við lögreglu. „Við vorum virkilega að vonast til þess að það fólk sem er á myndböndunum myndi gefa sig fram, en það hefur enn ekki orðið neinn árangur af því.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert