Peysan tengist málinu ekki

Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn.
Grímur Grímsson yfirlögregluþjónn. mbl.is/Golli

Peysa sem fannst í gærkvöldi nærri þeim stað sem skór, sem taldir eru vera Birnu Brjánsdóttur, fundust er ekki talin tengjast hvarfi hennar. Tæknideild lögreglu skoðaði peysuna í dag til að ákvarða um það hvort hún tengdist málinu. Niðurstaðan er að svo er ekki. 

„Þetta er það sem er nýjast í rannsókninni,“ segir Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglu á höfuðborgarsvæðinu. 

Hann verst frétta þegar tal berst að aðgerðum lögreglu á hafi úti en eins og fram hefur komið var grænlenska togaranum Polar Nanoq snúið við í gær. Mbl.is sagði frá því að að danska varðskipið Triton hafi verið sent í átt að Polar Nanoq.

Getur ekki staðfest aðgerðir á hafi 

Fram kom í fréttum RÚV  að þyrla landhelgisgæslunnar hafi farið með fjóra sérsveitarmenn af stað skömmu fyrir hádegi. Hún hafi svo lent aftur rúmlega 14. 

„Ég get ekkert staðfest um það hvort lögregla sé með aðgerðir á hafi úti,“ segir Grímur. Hann getur ekki heldur tjáð sig um ferðir þyrlu Landhelgisgæslunnar og segir rannsóknarhagsmuni koma í veg fyrir það. 

Spurður út í leitaraðgerðir við Strandarheiði þar sem Birnu Brjánsdóttur er nú leitað segir Grímur að verið sé að fylgja eftir ábendingu. „Við fylgdum eftir ábendingu en leitin hefur engan árangur borið,“ segir Grímur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert