Ákvörðun um gæsluvarðhald í dag

Mennirnir voru leiddir úr lögreglubílum inn í lögreglustöðina á Hverfisgötu.
Mennirnir voru leiddir úr lögreglubílum inn í lögreglustöðina á Hverfisgötu. mbl.is/Árni Sæberg

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir að skipverjarnir þrír sem handteknir voru á togaranum Polar Nanoq verði yfirheyrðir í nótt.

Ákveða verður fyrir hádegi hvort skipverjarnir tveir, sem handteknir voru um hádegi í gær, verði látnir sæta gæsluvarðhaldi vegna málsins. Sá þriðji var handtekinn í gærkvöldi og því verður að ákveða hvort hann skuli leiddur fyrir dómara snemma annað kvöld.

Aðspurður segir Grímur að ekki hafi verið tekin ákvörðun um hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir hinum handteknu, það verði gert að loknum yfirheyrslum.

Hann segir að yfirheyrslurnar hefjist innan skamms og munu standa fram á nótt. Spurður hve langan tíma lögreglan gefi sér í yfirheyrslurnar segist hann giska á að þær taki um það bil tvo tíma.

Fólk safnaðist saman við bílaportið hjá lögreglustöðinni.
Fólk safnaðist saman við bílaportið hjá lögreglustöðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Vitnaskýrslur annarra skipverja, en þeirra sem handteknir voru, verða teknar í nótt og sömuleiðis mun tæknideild lögreglunnar rannsaka togarann.

Til skoðunar hvort mennirnir hafi verið í bílnum

Grímur vill ekki gefa upp með hvaða hætti mennirnir tengjast málinu að öðru leyti en því, að til skoðunar er hvort þeir hafi verið á rauðri KIA Rio-bifreið sem lögreglan hefur lýst eftir. Til slíkrar bifreiðar sást við Hafnarfjarðarhöfn á laugardagsmorguninn.

„Niðri á Laugavegi var bíll sem við vorum að leita að og þeim sem í honum voru. Við vildum ná tali af þeim mönnum og það er til skoðunar hvort þessir menn hafi verið í þeim bíl. Það er líka til skoðunar með hvaða hætti öðrum þeir geta tengst þessu.“

Útilokar að Birna hafi gengið fram hjá mönnunum á myndböndunum

Spurður hvort grunur sé um að einhver hinna handteknu eða allir hafi sést fótgangandi á einhverjum myndbandanna sem lögregla hefur birt vegna málsins, útilokar hann það.

„Það eru ekki grunsemdir um það að þessir menn hafi verið einhverjir af þeim mönnum sem Birna gekk fram hjá á þessum myndböndum sem við höfum birt.“

Grímur segist ekki geta staðfest að einhver mannanna hafi leigt rauðu KIA Rio-bifreiðina sem lögreglan lýsti eftir. 

Polar Nanoq siglir inn til Hafnarfjarðar í kvöld.
Polar Nanoq siglir inn til Hafnarfjarðar í kvöld. Ómar Óskarsson

„Ég get ekki staðfest hvort svo sé. Ég hef alls ekki viljað gefa það upp með hvaða hætti þeir tengjast sönnunargögnum í málinu.“

Grímur segir að grænlensk yfirvöld hafi ekki sett sig í samband við lögregluna frá því lögregluaðgerðin í Polar Nanoq fór fram í dag, þar sem sérsveitarmenn réðust um borð í skipið. Hann ítrekar þó að grænlenskum yfirvöldum hafi verið fullkunnugt um aðgerðina.

Á forsíðu Fréttablaðsins í dag kemur fram að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum í dag. Í samtali við mbl.is staðfesti Grímur að engin ákvörðun hefði verið tekin um það, fyrst yrðu mennirnir yfirheyrðir og í framhaldinu yrði tekin ákvörðun um hvort farið yrði fram á gæsluvarðhald.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert