„Málið er á algerum byrjunarreit“

Mennirnir þrír leiddir frá borði seint í gærkvöld.
Mennirnir þrír leiddir frá borði seint í gærkvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Málið er á algerum byrjunarreit,“ segir Unnsteinn Örn Elvarsson héraðsdómslögmaður í samtali við mbl.is en hann er verjandi eins þriggja skipverja grænlenska togarans Polar Nanoq sem lögreglan handtók í gær vegna rannsóknar á hvarfi Birnu Brjánsdóttur, tvítugrar konu, sem víðtæk leit hefur farið fram að undanfarna daga.

Unnsteinn var viðstaddur skýrslutöku lögreglu af skjólstæðingi sínum í nótt en vísar að öðru leyti á lögregluna varðandi það sem þar fór fram. Hann segir aðspurður ekki rétt að mennirnir þrír hafi verið í yfirheyrslum í alla nótt heldur hafi skýrslutaka af þeim farið fram til skiptis. Hins vegar sé réttast að hann tjái sig sem minnst um málið á þessum tímapunkti.

„Það er að minnsta kosti á þessu stigi óeðlilegt að vera að reka málið í fjölmiðlum,“ segir Unnsteinn. Hann sé enn sjálfur að átta sig á málinu. Varðandi framhaldið segir hann ekki enn liggja fyrir hvort farið verði fram á gæsluvarðhald yfir skjólstæðingi sínum.

Sú ákvörðun þurfi þó að fara að liggja fyrir brátt enda hafi mennirnir verið handteknir um hádegisbilið í gær og lögreglan hafi sólarhring til þess að taka ákvörðun um gæsluvarðhald. Mbl.is hefur fengið staðfest að farið verði fram á gæsluvarðhald yfir skipverjunum en ekki liggur fyrir hvort það eigi við um þá alla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert