Mikill fjöldi vildi fylgjast með í kvöld

Bílalest lagði frá svæðinu.
Bílalest lagði frá svæðinu. mbl.is/Eva Björk

Mikil bílaumferð var við Hafnarfjarðarhöfn fyrr í kvöld þegar grænlenski togarinn Polar Nanoq kom að landi. Lögregla hafði biðlað til almennings um að virða lokanir og virðist almenningur hafa orðið við því. Aftur á móti flykktist töluverður fjöldi fólks að svæðinu.

Flestir héldu sig inni í bílum enda nístingskuldi niðri við höfnina, en búið var að girða svæðið af svo lítið var fyrir fólk að sjá. Fjölmiðlafólk fékk þó að fara um 300 metra frá skipinu og fylgjast með framgangi mála.

Nokkrir tugir bíla voru á hafnarsvæðinu sjálfu, þá var fjölda bíla lagt í vegkantinn á Hvaleyrarbraut sem fylgdist með í fjarska. Að auki var töluverð umferð við Herjólfsgötu, hinu megin við fjörðinn og hafði þó nokkrum bílum verið lagt í vegkantinn.

Mikil bílaumferð var við höfnina.
Mikil bílaumferð var við höfnina. mbl.is/Eva Björk

Nokkrir tugir bíla voru enn á svæðinu klukkustund eftir að skipið kom að landi, og eftir að hinir grunuðu voru leiddir úr skipinu og þeir keyrðir í burtu á lögreglubílum fylgdi stór hluti bílanna lögreglunni á eftir.

Blaðamaður mbl.is keyrði að lögreglustöðinni á Hverfisgötu, þangað sem skipverjarnir þrír voru fluttir, og myndaðist á leiðinni bílalest á eftir lögreglubílunum. Lögregla setti að lokum bláu ljósin á og ók í forgangsakstri, líklega til að komast undan bílalestinni. Ökumenn létu það ekki stöðva sig og keyrðu margir hverjir yfir á rauðu ljósi og á miklum hraða.

Fólk safnaðist saman við bílaportið hjá lögreglustöðinni.
Fólk safnaðist saman við bílaportið hjá lögreglustöðinni. mbl.is/Árni Sæberg

Þegar að lögreglustöðinni kom var þar nokkur fjöldi saman kominn. Bílar voru lagðir á víð og dreif á svæðinu. Flestir stóðu við grindverk sem afmarkar svæði lögreglu til að reyna að sjá betur. Mikil spenna var í hópnum.

Nú taka við yfirheyrslur yfir skipverjunum þremur sem hafa verið handteknir, en lögregla getur haldið þeim í 24 klukkustundir án gæsluvarðhaldsúrskurðar. Tveir mannanna voru handteknir um hádegi í gær en sá þriðji síðdegis.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert