Yfirheyrslum lokið í dag

Birna Brjánsdóttir sást á gangi á Laugavegi áður en hún …
Birna Brjánsdóttir sást á gangi á Laugavegi áður en hún hvarf. Lögregla hefur nú einnig undir höndum myndbandsupptökur úr eftirlitsmyndavélum sem sína mennina tvo sem grunaðir eru í máli hennar á ferð í miðbænum áður en Birna hvarf. Skjáskot/Facebook lögreglunnar

Yfirheyrslum er lokið í dag yfir mönnunum tveimur sem grunaðir erum um að tengjast hvarfi Birnu Brjánsdóttur, að sögn Einars Guðbergs Jónssonar, lögreglufulltrúa  hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu. Mennirnir verða nú fluttir á Litla-Hraun og ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um það hvort yfirheyrslum verði haldið áfram á morgun.

Mennirnir voru handteknir á miðvikudag um borð í grænlenska togaranum Polar Nanoq og voru í gær úrskurðaðir í tveggja vikna gæsluvarðhald.

Spurður hvort mennirnir viðurkenni að hafa hitt Birnu, segir Einar þá ekki neita því að hafa hitt hana. Þeir neiti hins vegar enn sök í málinu, en lögregla hefur gefið upp að rannsakað sé hvort Birnu hafi verið ráðinn bani.

Mennirnir sjást á myndbandsupptökum úr eftirlitsmyndavélum í miðbæ Reykjavíkur á föstudagskvöldið eða aðfaranótt laugardags. „En það er áður en hún hverfur,“ segir Einar og bætir við að myndbandsupptökurnar sýni allar mennina utandyra, ekki inni á skemmtistöðum.

Engar vísbendingar hafi hins vegar enn fundist sem bendir til þess að mennirnir hafi verið að fylgjast með Birnu um kvöldið.

Við rannsókn lögreglu á bæði rauðu Kia Rio bifreiðinni sem lögregla lagði hald á og við rannsókn á Polar Nanoq voru tekin lífsýni. Spurður hvort lögregla telji þau lífsýni vera úr Birnu, segir Einar: „Við eigum eftir að fá staðfestingu á því hvort að svo sé.“ Lífssýnin voru send erlendis og kveðst Einar vonast til að niðurstöður fáist sem fyrst. „Við óskuðum eftir forgangsrannsókn á þetta.“

Spurður hvernig rannsókn lögreglu á farsíma mannanna  gangi og hvort tekist hafi að tengja þá síma Birnu, svarar Einar: „ Við höfum ekki náð að tengja þá með óyggjandi hætti, en þetta þokast allt í áttina. Það slokknar á símanum hennar Birnu þannig að það flækir þetta svolítið.“

Greint var frá því fyrr í dag að vera kunni að slokknað hafi á farsíma Birnu af því að hann hafi orðið rafmagnslaus. „Við erum búin að fá staðfestingu á því að það sé möguleiki,“ segir Einar, en áður hafði verið fullyrt að það hefði orðið að slökkva á símanum handvirkt.

Vel gengur að vinna úr þeim vísbendingum sem lögreglu hefur borist. „Það er dágóður hópur manna sem er að vinna úr upplýsingum og öðru og allt sem við fáum inn sendum við á svæðisstjórnina sem sér um leitina og þeir vinna eftir því,“ segir Einar og kveður lögreglu nú vinna að því að skipuleggja rannsóknaraðgerðir helgarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert