Eru með kjötsúpu fyrir 300 manns

Mikill fjöldi björgunarsveitarmanna tekur þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur, …
Mikill fjöldi björgunarsveitarmanna tekur þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur, slysavarnadeildir sjá til þess að þeir fái nóg að bíta og brenna. mbl.is/Eggert

„Við erum búin að vera hér mikið til síðan leit hófst og höfum reynt að vinna þetta eins vel og við getum,“ segir Sigurbjög Hilmarsdóttir, formaður Slysavarnafélagsins Hraunprýði, í Hafnarfirði. Hún stóð vaktina við borð sem var hlaðið rúnstykkjum, croissant, súkkulaðistykkjum og ýmiss konar morgunhressingu fyrir leitarfólk þegar mbl.is leit við í morgun.

Félagar í Hraunprýði hafa staðið vaktina í Kletti, húsakynnum Björgunarfélags Hafnarfjarðar, undanfarna daga. Þeir hafa séð til þess að það björgunarsveitarfólk sem tekið hefur þátt í leitinni að Birnu Brjánsdóttur, sem ekkert hefur til spurst frá því síðasta laugardag, fái í sig næringu. „Við sjáum til þess að allir fái að borða. Hér er alltaf heitur matur,“ segir Sigurbjörg.

Stöndum vaktina þar til yfir lýkur

Það er þó meira en að segja það að fæða þá tæplega 500 björgunarsveitarmenn sem taka þátt í leitinni þessa helgi og hefur Hraunprýði nú borist aðstoð frá slysavarnafélögum í Reykjavík, Kópavogi og af Reykjanesinu. „Þær koma víða að og öll hjálp er vel þeginn,“ segir Sigurbjörg.

Björgunarsveitarfólk mun geta gripið með sér nesti eða fengið sér …
Björgunarsveitarfólk mun geta gripið með sér nesti eða fengið sér heitan mat í Kletti, þar sem slysavarnadeildir standa vaktina í dag. mbl.is/Eggert

Matarstöðin er að hluta til sett upp með það í huga að björgunarsveitarfólk geti nýtt tímann sem best til leitar. „Þetta er meðal annars gert til að fólk stoppi sem styst við – að það þurfi ekki sjálft að fara hugsa um að útbúa sér nesti, heldur geti gripið eitthvað með sér,“ segir Ingólfur Haraldsson, svæðisstjóri slysavarnafélaga á höfuðborgarsvæðinu.

Matur verður síðan jafnvel keyrður til þeirra sem eru hvað fjærst stjórnstöðinni við leit. „Síðan verður væntanlega önnur matarstöð sett upp í Grindavík eða Reykjanesbæ,“ bætir hann við.

Fengu kjötsúpu fyrir 300 manns

Fyrirtæki hafa heldur ekki legið á liði sínu og hefur slysavarnafélaginu borist mikill fjöldi matargjafa vegna leitarinnar. „Fyrirtæki eru virkilega að leggja hönd á plóginn,“ segir Sigurbjörg. „Það er hreint ótrúlegt hversu mikil velvild er alls staðar. Maður á eiginlega ekki til orð, það er svo mikill samhugur.“

Meðal matargjafanna sem slysavarnafélaginu hafa borist er kjötsúpa fyrir 300 manns, sem væntanlega mun reynast leitarfólki kærkominn vermir. Því þó að auð jörð auðveldi leit sem og að hitastig sé yfir frostmarki er engu að síður rigning og raki og þó að fólk sé vel útbúið getur kuldinn sótt að og þá getur verið gott að verma sig með góðri súpu.

„Þetta hefur gengið alveg ótrúlega vel,“ segir Sigurbjörg. „Við stöndum vaktina á meðan á okkur þarf að halda og þar til þessu lýkur og vonandi lýkur því sem fyrst.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert