Lokuðu skemmtistað á Höfðanum

Myndin er úr safni.
Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór á vettvang eftir að tilkynnt var um unglinga inni á skemmtistað á Höfðanum um kl. 1 í nótt. Var öllum vísað út og staðnum lokað.

Þá var stúlka vistuð í fangageymslu lögreglu í nótt, eftir að hún varð á vegi lögreglu á skemmtistað á Höfðanum en neitaði að segja til nafns eða gefa upp heimilisfang. Hún var ekki með skilríki.

Það fylgir ekki sögunni hvort hún var inni á áðurnefndum skemmtistað.

Lögreglan í Mosfellsbæ, Grafarvogi og Árbæ stöðvaði í nótt tvo ökumenn sem grunaðir eru um akstur undir áhrifum fíkniefna en þeim var sleppt að loknum blóðtökum.

Hún stöðvaði einnig ökumann á bifreið sem ekið var án skráningarmerkja en í ljós kom að bifreiðin var einnig óskráð og ótryggð. Ökumanni var fylgt heim og honum gert ljóst að hann yrði kærður fyrir brotin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert