Fótbolti, Andrésblöð og ofurtölva

Margrét Þórhildur horfir hér á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, …
Margrét Þórhildur horfir hér á Guðna Th. Jóhannesson, forseta Íslands, við hátíðarkvöldverðinn. mbl.is/Golli

Margrét Þórhildur Danadrottning minntist á íslenska karlalandsliðið í knattspyrnu, lestur Íslendinga á Andrésblöðum og ofurtölvu Veðurstofunnar í ræðu sem hún hélt í Amalíuhöll í kvöld. Tilefnið var opinber heimsókn Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands, og eiginkonu hans Elizu Reid til Danmerkur.

Margrét Þórhildur þakkaði forsetahjónunum fyrir komuna og sagði að ákvörðun forsetans, um að heimsækja Danmörku fyrst allra þjóða í embætti sínu, bæri vott um sterk tengsl þjóðanna tveggja.

„Danir hafa alltaf verið heillaðir af Íslendingum. Allt frá dönsku ljóðskáldunum, sem hrifust af íslenskum bókmenntum, til íslenska knattspyrnulandsliðsins sem setti norrænt mark sitt á Evrópukeppnina í knattspyrnu í Frakklandi í fyrra,“ sagði Margrét.

Frétt mbl.is: Forsetinn og „strákurinn úr Borgarnesi“ í boði drottningar

Hún ræddi um góð samskipti á milli íslenskra og danskra stofnana. „Í hversu mörgum öðrum löndum myndi veðurfræðistofnun setja upp ofurtölvuna sína hjá systurstofnun sinni í öðru landi án nokkurra vandkvæða,“ sagði hún og átti þar við ofurtölvuna hjá Veðurstofu Íslands.

Margrét sagði að Andrésblöðin hafi átt sinn þátt í því að kenna Íslendingum dönsku. Þeim hafi fundist skemmtilegt að læra dönsku með aðstoð þeirra.

„Danskan er mikilvæg vegna þess að hún opnar dyrnar fyrir norrænum tungumálaskilningi og enn frekari menntun á Norðurlöndum.“

Kom á óvart með því að flytja ræðuna á dönsku

Í frétt Danmarks Radio kemur fram að það hafi komið sumum á óvart að forseti Íslands skuli hafa flutt sína ræðu í kvöld á dönsku.

Venjulega fái gestir litla möppu með þýðingu á ræðunni þegar erlendur þjóðhöfðingi kemur í heimsókn.

Guðni sagðist í ræðu sinni vera á meðal síðustu íslensku barnanna sem biðu spennt eftir því að nýtt Andrésarblað kæmi út á dönsku.

Hann sagði að nú væri tíðin önnur og að danska væri ekki lengur fyrsta erlenda tungumálð sem Íslendingar læri í grunnskólum.

„Kaupmannahöfn er ekki lengur sterkasta tenging okkar við umheiminn,“ sagði hann en tók fram að hinn mikli áhugi á Danmörku væri svo sannarlega enn fyrir hendi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert