Varað við grjóthruni

Mynd úr safni.
Mynd úr safni.

Talsvert hefur verið um grjóthrun í Hvalnesskriðum og Kambaskriðum og eru vegfarendur beðnir að fara þar um með varúð, segir í tilkynningu frá Vegagerðinni.

Greiðfært er að mestu á Suður- og Vesturlandi. Hálkublettir eru á Holtavörðuheiði og Laxárdalsheiði.

Á Vestfjörðum  er á köflum hálka eða hálkublettir, einkum á fjallvegum. Öllu meiri hálka er á Ströndum. Opið er norður í Árneshrepp.

Það er mikið autt bæði á Norður- og Austurlandi en þó er sums staðar nokkur hálka á fjallvegum og allvíða hálkublettir eða jafnvel hálka á útvegum.  Greiðfært er með suðausturströndinni.

Vegna framkvæmda á brúnni yfir Blöndu á Blönduósi er önnur akreinin á brúnni lokuð og umferð er stýrt með ljósum. Athygli er vakin á að akbrautin er aðeins 3,0 m á breidd og eru vegfarendur því beðnir um að gæta fyllstu varúðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert