Átta tíma seinkun vegna veikinda

Frá Leifsstöð.
Frá Leifsstöð. mbl.is/Sigurður Bogi

Tæplega átta tíma seinkun varð á flugi flugfélagsins Primera Air frá Keflavík til Tenerife. Áætluð brottför var 8:15 í morgun en vélin fer ekki í loftið fyrr en klukkan 15:00 og fengu farþegar að vita af seinkuninni um klukkan 6:30.

Farþegi sem mbl.is ræddi við sagðist hafa lagt af stað úr Reykjavík um 4:30 í nótt vegna ferðarinnar. Síðan hafi verið tilkynnt í hátalarakerfi flugstöðvarinnar um klukkan 6:30 að fluginu yrði seinkað um tæpa átta tíma og farþegar beðnir um að fara að upplýsingaborði í hinum enda byggingarinnar.

Ástæðan sem var gefin fyrir seinkuninni var sú að einn úr áhöfn flugvélarinnar hefði veikst og það vantaði starfsmann til að fara í flugið. Flugfélagið gaf farþegum 1.400 krónur í skaðabætur vegna seinkunarinnar en sú upphæð dugði ekki einu sinni fyrir máltíð á flugvellinum.

Þrátt fyrir þetta sagði farþegi sem mbl.is ræddi við að enginn pirringur hefði verið, eða væri, sjáanlegur á meðal farþega. Staðfest er á heimasíðu Keflavíkurflugvallar að vélin fer í loftið klukkan 15:00.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert