Öll salan í desember á nokkrum klukkustundum

Eva og Laufey móðir hennar höfðu í nógu að snúast …
Eva og Laufey móðir hennar höfðu í nógu að snúast í dag, enda annasamasti dagur ársins í blómasölu. Eggert Jóhannesson

Nóg hefur verið að gera í blómabúðum landsins í dag, konudaginn, enda annasamasti dagur ársins þegar kemur að blómasölu. Í versluninni Ísblómum á Háaleitisbraut var fjölmennt þegar ljósmyndara mbl.is bar að garði. „Það hefur verið brjáluð sala yfir daginn,“ segir Eva Ruza, dóttir eiganda búðarinnar og starfsmaður, í samtali við mbl.is. Hún segir að í dag hafi selst á annað þúsund rósir og að farið hafi verið í tvær ferðir til að fylla á.

Ljósmyndari mbl.is kom einnig við í Mosfellsbakaríi og þar var …
Ljósmyndari mbl.is kom einnig við í Mosfellsbakaríi og þar var kaka ársins vinsæl í tilefni konudagsins. Eggert Jóhannesson

„Búðin er núna orðin eins og eyðimörk,“ segir Eva hlæjandi og bætir við að allar rósir séu uppseldar. Segir hún að líkja megi þessum nokkru klukkustundum í dag við alla söluna í desembermánuði. Þá sé salan í dag enn mun meiri en á Valentínusardaginn sem var núna fyrr í febrúar. Eini dagurinn sem kemst nálægt sölunni þennan dag er mæðradagurinn að hennar sögn.

Eva segir að meðan Valentínusardagurinn sé vinsælli hjá ungum kærustupörum komi öll flóran á konudaginn. Þannig hafi yngsti kaupandinn í dag verið þriggja ára strákur sem vildi kaupa rós handa ömmu sinni. Hún segir að umferðin hafi byrjað strax við opnun klukkan átta í morgun og staðið alveg fram til sex þegar auglýstur lokunartími sé á sunnudögum. Þær hafi þó opið eitthvað áfram meðan frágangur fer fram fyrir þá sem hafi gleymt sér í dag.

Rósirnar voru vinsælar í dag.
Rósirnar voru vinsælar í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðað við fyrri ár segir Eva að búast megi við talsverðri umferð á morgun líka, en þá komi venjulega þeir sem ekki hafi verið í bænum eða jafnvel þeir sem gleymdu sér alveg.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert