18 mánaða fangelsi fyrir umferðarbrot

Héraðsdómur Reykjavíkur.
Héraðsdómur Reykjavíkur. mbl.is/Ernir Eyjólfsson

Karlmaður á fertugsaldri var í dag dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur til að sæta fangelsi í 18 mánuði og var ævilöng svipting ökuréttar auk þess áréttuð fyrir ítrekuð umferðarlagabrot.

Brot mannsins ná frá apríl í fyrra til nóvember. Var hann meðal annars fundinn sekur um að hafa ekið bifreið í apríl undir áhrifum áfengis og mældist vínandinn 1,7 prómill. Hafði maðurinn áður verið sviptur ökuréttindum.

Í maí var maðurinn tvívegins tekinn fyrir umferðarlagabrot. Í annað skiptið fyrir akstur eftir að hafa verið sviptur réttindum og í hitt skiptið fyrir að hafa í blekkingarskyni sett annað skráningarnúmer á bifreiðina sem hann keyrði.

Í ágúst var maðurinn aftur stoppaður fyrir akstur sviptur ökuréttindum og síðar í mánuðinum var hann aftur stoppaður fyrir akstur sviptur réttindum auk þess að vera óhæfur til að stjórna bifreiðinni vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.

Í nóvember var hann svo aftur stoppaður sviptur ökurétti og undir áhrifum áfengis og ávana- og fíkniefna.

Samkvæmt sakavottorði hefur maðurinn margítrekað verið fundinn sekur um brot gegn umferðarlögum. Taldi dómari því rétt að árétta ævilanga sviptingu ökuréttinda, dæma manninn til greiðslu á 253 þúsund krónum í sakarkostnað og í 18 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert