Raunsæ lífsgleði Lúthers

Bruggmeistararnir Valgeir Valgeirsson og Árni Theodór Long sýna Sigurjóni Árna …
Bruggmeistararnir Valgeir Valgeirsson og Árni Theodór Long sýna Sigurjóni Árna Eyjólfssyni bjórinn. mbl.is/Rax

Páskabjórinn Lúther fer í sölu í Vínbúðunum á öskudag, miðvikudaginn 1. mars nk., en nafnið er til komið vegna 500 ára afmælis siðbótar Marteins Lúthers.

Í ár eru 500 ár frá því Marteinn Lúther hengdi skjal með 95 greinum gegn aflátssölunni á dyr Hallarkirkjunnar í Wittenberg í Þýskalandi og markaði atburðurinn upphaf siðbótarhreyfingarinnar. Tímamótanna er minnst víða um heim á árinu og meðal annars hér á landi. Á dánardegi Lúthers síðastliðinn laugardag flutti dr. Sigurjón Árni Eyjólfsson, héraðsprestur í Reykjavíkurprófastsdæmi eystra, erindi í safnaðarheimili Dómkirkjunnar um lífsgleðina og dauðann í guðfræði Marteins Lúthers og skálaði í Lúther-bjór að því loknu.

Lúther og bjór

Vegna siðbótarafmælisins var skipuð sérstök nefnd til þess að undirbúa það sem best og skipuleggja viðburði á árinu hér á landi, en siðbótardagurinn er 31. október. Sigurjón Árni segir að bjór hafi verið Lúther hugleikinn og meðal annars hafi Katrín af Bóra, eiginkona hans, bruggað bjór fyrir hann eins og hafi reyndar tilheyrt heimilishaldi margra á þeim tíma. Í tilefni afmælisins sé víða eitthvað í gangi í sambandi við Lúther og bjór og því hafi afmælisnefndin ákveðið að kanna möguleika á sambærilegri tengingu hérlendis. Haft hafi verið samband við Borg Brugghús og þar á bæ hafi menn tekið vel í hugmyndina enda vantað nafn á páskabjórinn í ár.

Sigurjón Árni minnir á að Lúther hafi samið bjórauglýsingar til þess að drýgja tekjurnar og gegnt kirkju einni í Berlín sé til dæmis krá sem heiti Lúther. Lúther hafi tekið erfiðleika lífsins alvarlega en um leið séð vægi gleðistundanna, rétt eins og séra Hallgrímur Pétursson.

Í fyrirlestrinum um helgina bar Sigurjón Árni saman umfjöllun Prédikarans í Biblíunni og Lúthers um lífsgleðina. Hann rifjaði upp að þeir hefðu báðir gefið góð ráð um hvernig sigrast ætti á erfiðleikum lífsins með lífsgleðinni. Lúther hefði sagt að þegar þunglyndi sækti að ættu menn að grípa til lífsgleðinnar, borða vel og drekka, því djöfullinn ætti erfiðara með að glíma við þá sem væru með magann fullan af góðum mat og höfuðið fullt af skemmtilegum sögum. Tónlist, dans og íþróttir væru hér líka mikilvæg, enda sagði Lúther djöfulinn þola lítt það sem gleddi hjarta mannsins og sérstaklega þegar eða af því að það tengist orði Guðs. „Þetta er grundvallarafstaða hans til lífsins,“ segir Sigurjón Árni og bendir líka á mikilvægi samlífsins enda hafi Lúther sagt að hann hafi oft faðmað konu sína og strokið henni nakinni til þess að hrekja burtu árásir andskotans. „Lúther var maður bæði raunsær og lífsglaður,“ áréttar Sigurjón Árni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert