Skilaði meistararitgerðinni 22 ára

Hulda hefur ekki ákveðið hvað tekur við í haust.
Hulda hefur ekki ákveðið hvað tekur við í haust. Ljósmynd/Hulda Vigdísardótir

Hulda Vigdísardóttir brautskráðist úr meistaranámi í íslenskri málfræði um helgina, aðeins 23 ára gömul, en þegar hún lauk náminu í lok október var hún enn 22 ára. Hulda hóf nám í háskólanum haustið 2013 eftir að hafa lokið stúdentsprófi við Menntaskólann í Reykjavík, kláraði síðan grunnámið á tveimur árum og meistaranámið á einu ári samhliða ljósmyndun, fyrirsætustörfum og fimm mánaða heimsreisu.

„Ég fór í heimsreisu í janúar á síðasta ári og kom heim í júní. Á meðan ég var úti var ég enn í námi, skilaði verkefnum og fylgdist með á netinu,“ segir Hulda í samtali við Morgunblaðið. Síðustu tvo vetur hefur hún unnið sem aðstoðarkennari í háskólanum en hún hefur ekki tekið ákvörðun um hvað tekur við í haust.

„Ég hef mikinn áhuga á almennum málvísindum og talmeinafræði. Annars hef ég verið að dunda mér við að þýða og finnst gaman að skrifa.“

Þriggja ára verkefni

Meistararitgerðina skrifaði hún undir leiðsögn Þórhalls Eyþórssonar og í henni eru sagnbeygingarkerfi norrænna mála rannsökuð og borin saman á kerfisbundinn hátt.

„Ritgerðin er hluti af stærra verkefni sem er í umsjón leiðbeinanda míns og hlaut styrk úr Rannsóknarsjóði HÍ. Áætlað er að verkefnið taki þrjú sumur og mögulega vinn ég við það í sumar líka. Það snýst um að safna og greina alls kyns efni til stuðnings þeirri tilgátu að þau tungumál sem finnast á Norðurlöndum myndi samhangandi málsvæði að frátöldum finnsku, grænlensku, samísku og mállýskum þeirra. Þá er gert ráð fyrir því að tungumálin og mállýskurnar eigi sér ekki einungis sameiginlegar rætur að rekja til frumnorrænu heldur hafi þau einnig haft áhrif hvert á annað sem og orðið fyrir alls kyns utanaðkomandi áhrifum frá öðrum málum (t.d. ensku, latínu og þýsku). Í MA-ritgerð minni einblíndi ég mest á sagnbeygingu og skoðaði hvernig beygingin hefur þróast.“ Lokaritgerð hennar til bakkalársgráðu fjallaði hins vegar um orð sem eru mynduð með viðskeytinu -ó og hvernig það viðskeyti hegðar sér í orðmyndun og beygingu auk þess sem fjallað er um útbreiðslu og notkun viðskeytisins í rit- og talmáli.

Samdi kennslubók fjórtán ára

Hulda segir að hún hafi snemma ákveðið að læra íslensku í háskóla. Árið 2008, þá 14 ára, komst hún á síður Morgunblaðsins þegar hún var að læra fyrir samræmdu prófin og gerði sér lítið fyrir og samdi kennslubók í málfræði. 

Frétt Morgunblaðsins: Fjórtán ára kennslubókarhöfundur

Tiltækið var tilnefnt fyrir hönd Tjarnarskóla til að hljóta viðurkenningu á degi íslenskrar tungu. Kennslubókin fékk heitið Röndótt og Hulda samdi málfræðikennsludisk til að fylgja bókinni. Hún sagði þá í samtali við Morgunblaðið að íslenskan heillaði hana mest og að hún útilokaði ekki að læra íslensku í háskóla. „Ég vissi alltaf að mig langaði í íslenskunám,“ segir Hulda.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert