Deilt um frárennslismál við Mývatn

Deilt er um frárennslismál hótela við Mývatn.
Deilt er um frárennslismál hótela við Mývatn. mbl.is/Birkir Fanndal Haraldsson

„Frárennslismál frá hreinsistöð við Hótel Laxá eru í lagi. Hótelið hefur ekki farið fram á neinar undanþágur vegna slíkra mála enda fjárfesti það í besta fáanlega búnaði á Íslandi til þess að uppfylla ýtrustu kröfur samkvæmt lögum.“ Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hótel Laxá.

Í þætti Kastljóss í kvöld kom fram að slakt eftirlit og ítrekaðar undanþágur frá þeim reglum sem gilda um fráveituhreinsun hafi verið veittar hótelrekenda í Mývatnssveit. Sjá umfjöllun Kastljóss en þar var rætt við Guðmund Inga Guðbrandsson, framkvæmdastjóra Landverndar. Hann telur tímabært að kalla stofnanir og ráðuneyti til ábyrgðar vegna aðgerðarleysis þeirra í þessum málum við Mývatn. 

Edda Hrund Guðmundsdóttir Skagfield, hótelstjóri Hótels Laxár, vísar þessum ásökunum alfarið á bug í tilkynningunni. Í tilkynningunni segir að bilun hafi orðið í búnaðinum síðasta sumar sem ráðin var bót á. „[E]n við hörmum að sjálfsögðu að þessi bilun hafi komið upp. Eftirlitsaðilar voru meðvitaðir um bilun stöðvarinnar og upplýstir um framgang lagfæringar.“

Í henni er einnig bent á að hótelið hafi það markmið að vera umhverfisvænt þar sem virðing er borin fyrir náttúrunni. „Því tökum við svona mál alvarlega og viljum við vera í farabroddi í umhverfis- og fráveitumálum í Mývatnssveit,“ segir enn fremur í tilkynningunni.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert