Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Miðstöð fyrir þolendur ofbeldis í Bjarkarhlíð við Bústaðaveg verður formlega opnuð í byrjun mars næstkomandi. Þetta er hluti af aðgerðum sem eru byggðar á fyrstu tillögum samráðshóps um meðferð kynferðisbrota innan réttarvörslukerfisins og voru lagðar fram  1. júní 2016. 

Þetta kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen dómsmálaráðherra við fyrirspurn Steinunnar Þóru Árnadóttur, þingmanns Vinstri grænna, um meðferð kynferðisbrota.

Áætlað er að samráðshópurinn sem innanríkisráðherra skipaði í mars 2016 ljúki störfum og skili lokaskýrslu haustið 2017. 

Þegar er hafin vinna við að „samræma gátlista og verkferla, aðgerðir í því skyni að stytta málsmeðferðartíma innan kerfisins, bæta gagnaflæði í réttarvörslukerfinu, vinna við fullgildingu Istanbúlsamningsins“. Þetta eru allt dæmi um aðgerðir sem kröfðust ekki frekari úrvinnslu eða íhlutunar af hálfu ráðuneytisins og því var strax hafist handa við að framkvæma þessar tillögur. 

„Skoðað verður hvort breyta eigi réttarstöðu brotaþola í kynferðisbrotamálum til samræmis við það sem tíðkast í grannríkjum Íslands þegar samráðshópur um meðferð kynferðisofbeldis innan réttarvörslukerfisins hefur lokið störfum,“ segir jafnframt í svari Sigríðar.  

Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna.
Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður Vinstri grænna. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert