Miklar tafir vegna umferðaróhapps

Löng bílaröð hefur myndast vegna óhappsins.
Löng bílaröð hefur myndast vegna óhappsins. Ljósmynd/Haraldur Gísli Sigfússon

Lögregla hefur lokað Þrengslavegi um óákveðinn tíma þar sem flutningabifreið þverar veginn við Skógarhlíðabrekku. Unnið er að því að fjarlægja bifreiðina. Engin slys urðu og er bifreiðin á hjólunum.

Vegagerðin segir að umferðartafir séu á Hellisheiði og eru vegfarendur beðnir að fara varlega og sýna þolinmæði.  

Uppfært kl. 11:16

Svanur Gunnarsson, starfsmaður á Litlu kaffistofunni, segir í samtali við mbl.is að umferðin sé alveg stopp í austurátt. Hann segir að þar hafi flutningabifreið með aftanívagn lokað öllu, eða rétt við gatnamótin þegar beygt sé inn á bílaplanið við Litlu kaffistofuna. „Hann hefur runnið þarna út og farið þvert - ekki alveg þvert á veginn - heldur í ell,“ segir Svanur. Hann bætir við að eitthvað sé að losna um þegar þetta er skrifað.

Ljósmynd/Haraldur Gísli Sigfússon

Lögreglan á Suðurlandi segir að í morgun hafi fjölmargir ökumenn misst bifreiðar sínar út af vegum í umdæminu og nokkrar bílveltur hafa komið inn á borð lögreglu. Alvarleg slys hafa þó ekki orðið á fólki.

Lögregla beinir þeim tilmælum til fólks að stilla ökuhraða í hóf og huga að dekkjabúnaði bifreiða. Mikið slabb er á vegum og skyggni oft lélegt.

Þá má geta þess að Mosfellsheiði er einnig lokuð um óákveðinn tíma þar sem skyggni er lélegt. Engin slys hafa orðið að sögn lögreglunnar á höfuborgarsvæðinu en björgunarsveitarbifreið var send á vettvang til að aðstoða ökumenn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert