Nýr forstjóri Hörpu fær 1,3 milljónir

Harpa.
Harpa.

Mánaðarlaun nýs forstjóra Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss verða um 1,3 milljónir króna með yfirvinnu og álagi. Þetta kemur fram í úrskurði kjararáðs.

Kjararáð hefur ekki áður tekið ákvörðun um laun forstjóra Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf.

„Við ákvörðun launa hans hefur verið höfð hliðsjón af umfangi og verkefnum félagsins að teknu tilliti til þess innbyrðis samræmis sem kjararáði ber að gæta og áður er gerð grein fyrir,“ segir í úrskurðinum.

Halldór Guðmundsson lætur af störfum sem forstjóri Hörpu 1. mars. Ekki hefur verið ráðinn nýr forstjóri.

Halldór Guðmundsson.
Halldór Guðmundsson. mbl.is/RAX

Krefst mikillar viðveru

Halldór sendi kjararáði ráðningarsamning sinn. „Samkvæmt honum fær forstjóri greidd föst laun. Auk launa er í samningnum fjallað um orlof, veikindarétt, ferðakostnað, tryggingar og greiðslur í lífeyrissjóð. Félagið greiðir kostnað vegna farsíma, tölvu og tölvutengingar á heimili forstjóra. Þá greiðir félagið eitt bílastæði í bílakjallara Hörpu. Fram kemur að gagnkvæmur uppsagnarfrestur sé níu mánuðir,“ segir í úrskurði kjararáðs.

Halldór greinir einnig frá því í bréfinu að starf forstjóra krefjist mikillar viðveru og sýnileika, meðal annars vegna fjölda viðburða í húsinu og mikils áhuga fjölmiðla á starfseminni.

Í svari stjórnar Hörpu tónlistar- og ráðstefnuhúss ohf. dagsettu 9. ágúst 2016 til kjararáðs segir að eðli starfs forstjórans krefjist mikillar viðveru utan hefðbundins vinnutíma og mikilvægt að hann sé sýnilegur á þeim fjölmörgu atburðum sem þar fari fram.

Fram kemur í svarinu að forstjórinn sitji í stjórn dótturfélaga Hörpu auk Ráðstefnuborgarinnar Reykjavíkur og þiggi ekki laun fyrir þau störf.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert