Íslenskir ævintýramenn takast á við frumskóginn

Jónas við æfingar í hjólagarði í Kostaríka.
Jónas við æfingar í hjólagarði í Kostaríka. Ljósmynd/Frans Friðriksson

Þrír íslenskir ævintýramenn ætla að takast á við eina mestu þolraun lífs síns í fjallahjólakeppni um frumskóga Kostaríka. Keppnin hefst í dag, miðvikudag, og stendur í fjóra daga. Hitinn er helsti óvissuþátturinn en steypiregn eins og það gerist mest í frumskógum gæti einnig sett strik í reikninginn.

Félagarnir Jónas Stefánsson, Franz Friðriksson og Daníel Magnússon eru allir miklir útivistarmenn. Þeir hafa þekkst lengi og m.a. stundað saman skíði, bretti og hjólreiðar. „Við reynum alltaf að hafa eitthvað að gera, sama hver árstíðin er,“ segir Jónas í samtali við mbl.is sem sló á þráðinn til þeirra til Kostaríka. 

Jónas Stefánsson við æfingar í Kostaríka.
Jónas Stefánsson við æfingar í Kostaríka. Ljósmynd/Franz Friðriksson

Á hrikalegum fjallastígum frumskógarins

Keppnin heitir TransCR Enduro og hefst í dag, 22. febrúar, og lýkur hinn 26. Leiðin sem farin verður er í frumskógi í hæstu fjöllum landsins í Providencia de Dota. Farið verður um þrönga moldarstíga skógarins sem geta þó verið grýttir og einnig mjög brattir. Raunar vita þátttakendur ekki fyrirfram hver leiðin er. Allir sem keppa eru því jafnir í upphafi að því leytinu. Eitt af því fáa sem keppendur vita er að brautin liggur utan almannaleiðar.

Form keppninnar er með þeim hætti að á degi hverjum þarf að hjóla ákveðna leið sem getur verið 30-50 kílómetrar. Keppendur mega því eiga von á því að vera á hjólunum milli 3 og 6 klukkustundir dag hvern. Hjólað er að mestu niður í móti, eða um 80% leiðarinnar. Farið er á milli nokkurra tímatökusvæða og samanlagður tími yfir dagana fjóra ræður svo úrslitum. 

„Við vitum ekkert hvað við þurfum að hjóla langa vegalengd á dag,“ segir Jónas. „Þetta er svokallað „Blindracing“ sem þýðir að við vitum ekkert fyrirfram hver leiðin verður eða hvernig.“

Orkuskot og varðeldur

Tjaldbúðum verður slegið upp í skóginum og þar munu allir keppendur, um 100 talsins, halda til á nóttunni. Búast má m.a. við varðeldi og orkuríkum máltíðum í búðunum. Keppendur verða fluttir til og frá búðunum á keppnisstaðina. 

Um einstaklingskeppni er að ræða en félagarnir þrír ætla þó að reyna að halda hópinn að einhverju marki. Franz neyðist þó til að vera aðeins á hliðarlínunni, eins og Jónas orðar það, því hann viðbeinsbrotnaði á hjólaæfingu fyrir þremur vikum.

Kljást við frumskóginn

Keppni sem þessi er þeim félögum ekki algjörlega framandi. Daníel og Jónas kepptu í sambærilegri keppni í Kanada í fyrra og náðu góðum árangri. Daníel endaði í tíunda sæti í sínum flokki, 40+, og Jónas hafnaði í 24. sæti í opnum flokki. Þá var hjólað í sex daga og keppendurnir voru yfir 120. 

Jónas, Frans og Daníel æfðu sig að hjóla í hitanum …
Jónas, Frans og Daníel æfðu sig að hjóla í hitanum í höfuðborginni San José. Ljósmynd/Jónas Stefánsson

„Við vitum svona nokkurn veginn út í hvað við erum að fara, eða þykjumst allavega vita það,“ segir Jónas og hlær. „Nema núna erum við að kljást við frumskóg.“

Jónasi vefst tunga um tönn þegar hann er spurður hvað hann óttist mest að komi uppi á í keppninni. Slíkt virðist ekki vera honum ofarlega í huga, eins og góðum ævintýramanni sæmir. „Ætli maður sé ekki aðallega stressaður yfir hitanum en hann er núna í kringum þrjátíu gráður,“ segir Jónas loks. „Svo er allt í einhverjum skordýrum og slöngum hérna sem maður þarf að passa sig á.“

- En hvernig undirbýr maður sig fyrir svona átök?

„Við erum náttúrlega búnir að vera að hjóla í allan vetur eins og við höfum mögulega getað. Í [fyrradag] fórum við í smá hjólatúr hérna í bænum [höfuðborginni San José] til að finna hvernig það er að hjóla í þessum hita. Það hefur gefið okkur aðeins nasaþefinn af því sem er framundan.“

 Jónas segir að keppnishaldarar hugsi fyrir mörgu, s.s. mat og vökva fyrir keppendur. „Við eigum ekki að þurfa að hugsa um slíkt á meðan keppninni stendur. Þannig að þetta er frekar þægilegt að því leytinu til.“

San José er falleg borg í gríðarlega fallegu landi, Kostaríku. …
San José er falleg borg í gríðarlega fallegu landi, Kostaríku. Félagarnir ætla að skoða sig um í landinu að keppni lokinni. Ljósmynd/Jónas Stefánsson

Hinn gullni meðalvegur

Þremenningarnir tóku hjólin sín með sér að heiman. Spurður um hvernig hjól þurfi til að taka þátt í svona keppni segir Jónas að góð fjöðrun sé eitt lykilatriðið. „Yfirleitt eru þetta frekar grófar og brattar leiðir sem við hjólum niður. Samt þarf maður að geta hjólað upp í móti líka. Þannig að maður þarf að finna gullna meðalveginn og hjól sem hentar fyrir hvort tveggja.“

Jónas segir að eitt af því sem gera þurfi ráð fyrir sé mikil rigning meðan á keppninni stendur. „Við þurfum að hafa það á bak við eyrað, það getur komið þetta frumskógarregn sem er mikið talað um hérna. Þá myndast algjör drulla og leðja. Við tókum með okkur grófari dekk til að geta sett undir hjólin ef svo ber undir. Annars þarf maður bara að vera flinkur og fimur á hjólinu, verði allt í drullu,“ segir hann hlæjandi.

Daníel og Franz hvíla sig á æfingu í Senderos Colon …
Daníel og Franz hvíla sig á æfingu í Senderos Colon í nágrenni San José. Ljósmynd/Jónas Stefánsson

- Hvaða markmið hafið þið sett ykkur í keppninni?

„Við setjum auðvitað markið alltaf sem hæst,“ segir Jónas. „Fyrsta atriðið er samt að klára keppnina og hafa gaman af henni.“

Brúðkaupsferð um Kostaríka

Eftir keppnina ætla þeir að skoða sig betur um í þessu fallega landi og Jónas og eiginkona hans, Arna Benný Harðardóttir, ætla í brúðkaupsferð en þau giftu sig í ágúst. Eftir það ævintýri tekur svo alvaran við en Franz starfar sem línumaður hjá Landsneti, Daníel er kerfisstjóri hjá Sensa og Jónas er leiðsögumaður.

Hér getur þú fylgst með myndum félaganna frá keppninni á Instagram-reikningum Franz, Daníels og Jónasar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert