Bætir samskipti á tímum neyðarástands

Á myndinni er Halldór ásamt David Kola frá svæðaskrifstofu Alþjóðasambands …
Á myndinni er Halldór ásamt David Kola frá svæðaskrifstofu Alþjóðasambands Rauða krossins fyrir Afríku og Fungai J. Kanjodo, starfsmanni Rauða krossins í Malaví, sem sér um tölvu- og upplýsingamál. Ljósmynd/Rauði krossinn

Halldór Gíslason, sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi, er staddur í Malaví þar sem hann aðstoðar systurfélag Rauða krossins þar í landi við að brúa hið „stafræna“ bil og gera starfsfólki og sjálfboðaliðum þess kleift að nýta sér betur kosti upplýsingatækninnar í starfi sínu. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Rauða krossinum á Íslandi. 

„Gott upplýsingaflæði er sérstaklega mikilvægt á tímum neyðarástands þegar koma þarf upplýsingum fljótt og örugglega á milli. Í verkefninu er lögð áhersla á sjálfbærni, en Microsoft heimilar Rauða kross-landsfélögum í lágtekjuríkjum Afríku að nýta Office 365-hugbúnaðinn án endurgjalds. Einnig eru valdar leiðir við uppsetningu á hugbúnaði sem ekki eru taldar munu kalla á mikinn kostnað fyrir landsfélagið í framtíðinni hvað varðar viðhald og endurnýjun,“ segir jafnframt í tilkynningunni.

Halldór er tölvunarfræðingur og viðskiptafræðingur og starfar í hugbúnaðarlausnum Íslandsbanka. Þetta er fyrsta ferð hans á vettvang sem sendifulltrúi Rauða krossins á Íslandi. Verkefnið í Malaví er styrkt m.a. af utanríkisráðuneytinu og unnið í samstarfi við Alþjóðasamband Rauða krossins og Rauða hálfmánann. Áður hafa sambærileg verkefni meðal annars verið unnin í Sierra Leone og Hvíta-Rússlandi með góðum árangri, segir jafnframt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert