Fráveitumálin stærra úrlausnarefni

Mývatn er náttúruperla.
Mývatn er náttúruperla. mbl.is/Golli

„Sveitarstjórn Skútustaðahrepps telur mikilvægt að umfjöllun um fráveitumál við Mývatn nái til málsins í víðu samhengi. Jafnframt er nauðsynlegt að byggt sé á réttum upplýsingum um hlutverk einstakra stjórnvalda og ónákvæmni um það verði ekki notuð til þess að ala á tortryggni.“

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Skútustaðahreppi vegna fráveitumála við Mývatn sem hafa verið í kastljósi fjölmiðla í vikunni. 

Í tilkynningunni er bent á að eftirlit með svæðinu, þar með talið fráveitumálum, er hvort tveggja í höndum ríkis og sveitarfélagsins. Þar að auki er Mývatn á verndarsvæði og lýtur sérstökum reglum þar um.

Í þessu samhengi er vísað til þess að í „umræðunni hefur ekki verið gerður greinarmunur á byggingareftirliti sveitarfélags, sem fer fram samkvæmt mannvirkjalögum, og eftirliti með fráveitumálum sem er almennt í höndum heilbrigðiseftirlits. Þá hefur Umhverfisstofnun sérstaka stöðu varðandi ábyrgð og eftirlit með verndarsvæði við Mývatn, samkvæmt lögum um verndun Laxár og Mývatns.“

Stærra úrlausnarefni sveitarfélaga og ríkis

„Fráveitumál í Skútustaðahreppi er hluti stærra úrlausnarefnis sveitarfélaga og ríkisins, að mæta auknum kröfum um uppbyggingu fráveitumannvirkja og fjármögnun slíkar uppbyggingar á landsvísu. Staða Skútustaðahrepps er þó sérstök vegna einstakrar stöðu Mývatns sem landluktrar náttúruperlu og vinsæls ferðamannastaðar og sérstakra krafna um fráveitur á verndarsvæðinu. Innan Skútustaðahrepps er þörf á fráveituframkvæmdum fyrir 500 til 700 milljónir króna til að mæta kröfum reglugerða, samkvæmt nýrri skýrslu sem unnin var að beiðni umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. [...] Aðkoma ríkisins er lykilatriði varðandi úrbætur í fráveitumálum, eins og lög um verndun Mývatns kveða á um,“ segir jafnframt í tilkynningu. 

Sveitarfélagið mun ekki skorast undan sinni ábyrgð og hefur beitt stjórnvöld miklum þrýstingi til að koma að borðinu varðandi fjármögnun á heildarlausn fráveitumála í sveitarfélaginu, eins og þeim ber að gera samkvæmt verndarlögunum. Segir að endingu í tilkynningu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert