Sérlega slæmt veður í efri byggðum

Vindaspáin klukkan 15 á morgun.
Vindaspáin klukkan 15 á morgun. Kort/Veðurstofa Íslands

Í fyrramálið hvessir mjög af suðaustri og hlýnar hratt. Engu að síður verður úrkoman snjókoma eða slydda framan af degi en síðar rigning. Suðaustanstormur eða -rok verður víða um land eftir hádegi og mjög slæmt ferðaveður.

Þetta kemur fram á vefsíðu Veðurstofu Íslands.

Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, segir að versta veðrið muni taka 5 til 6 tíma að ganga yfir hvern landshluta á morgun.

Hann býst við miklu roki á Kjalarnesi og undir Hafnarfjalli, auk þess sem mjög slæmt veður verður á Hellisheiðinni. Þar mun veðrið líklega ná hámarki upp úr hádegi. Búist er við blindhríð á Hellisheiðinni og hefur Vegagerðin greint frá því að hún verði líklega lokuð.

Að sögn Óla Þórs byrjar að hvessa á höfuðborgarsvæðinu strax í fyrramálið, upp úr klukkan sex með úrkomu, og versta veðrið þar verður á milli klukkan 14 og 17. Búist er við meðalvindi á milli 20 og 28 metrum á sekúndu. Veðrið verður sérlega slæmt í efri byggðum, þar á meðal í Grafarholti, Salahverfinu og efri hluta Árbæjarins.

Annars staðar á landinu nær veðrið líklega hámarki á milli klukkan 17 og 18.

Þegar nánar er skoðað eru veðurhorfur á landinu á þá leið, samkvæmt Veðurstofunni, að suðaustlæg átt, 8-15 metrar á sekúndu, verður fram á nótt en annars yfirleitt 3 til 10 metrar á sekúndu.

Víða verða él en snjókoma eða slydda austan Öræfa. Hiti verður í kringum frostmark.

Í fyrramálið verður vaxandi suðaustanátt, fyrst suðvestan til, og víða verða 20 til 28 metrar á sekúndu síðdegis. Snjókoma eða slydda verður og síðan rigning.

Talsverð eða mikil rigning verður um tíma suðaustanlands seint á morgun og hlýnar í veðri. Snýst í mun hægari sunnan- og suðvestanátt, fyrst suðvestan til undir kvöld, með skúrum eða éljum. Hiti verður á bilinu 1 til 7 stig.

Búist er við að versta veðrið á Reykjanesbraut verði um og upp úr hádeginu. Á Facebook-síðu Veðurstofunnar er fólk hvatt til að athuga fréttir af veðri og færð áður en lagt er af stað enda er ekki spáð neinu ferðaveðri. 

Veðurvefur mbl.is

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert