Þyngdi dóm vegna líkamsárásar

Hæstiréttur dæmdi karlmann í dag í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa ráðist á fyrrverandi sambýliskonu sína og veitt henni áverka. Héraðsdómur Reykjavíkur hafði áður dæmt manninn í 45 daga skilorðsbundið fangelsi en ákæruvaldið hafði farið fram á að dómurinn yrði þyngdur. Taldi Hæstiréttur rétt að verða við því.

Fram kemur í ákæru að maðurinn hefði að kvöldi fimmtudagsins 9. október 2014 ráðist á konuna í sumarhúsi og slegið hana með krepptum hnefa í andlit og hnakka. Við það hafi hún fallið í gólfið og hafi þá maðurinn sparkað í efri hluta líkama hennar, rifið í hár hennar og dregið hana út úr húsinu. Þar hafi maðurinn sparkað aftur í líkama hennar og slegið hana í andlitið.

Eftir þetta hafi maðurinn læst konuna úti en hún brotið rúðu í húsinu til að reyna að komast inn. Þegar hún hafi teygt höndina inn um brotinn gluggann hafi maðurinn tekið í hönd hennar og opnað hurðina svo konan hafi orðið fyri skurði á hendinni. Eftir að aftur hafi verið komið inn í húsið hafi maðurinn sparkað í rass konunnar.

Maðurinn var sakfelldur fyrir þessa háttsemi og dæmdur í þriggja mánaða skilorðsbundið fangelsi sem fyrr segir og enn fremur til þess að greiða konunni 600 þúsund krónur í bætur með vöxtum. Þá var honum gert að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, rúmlega 724 þúsund krónur, og rúma eina milljón króna í málskostnað í héraði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert