Fái svigrúm til að meta stöðuna

Sigríður Andersen dómsmálaráðherra.
Sigríður Andersen dómsmálaráðherra. mbl.is/Eggert

„Þetta er ekki komið inn á borð til mín. Það er í höndum málsaðila, ákæruvaldsins og dómstóla, og næstu skref verða tekin þar. Það er mikilvægt að þeir fái svigrúm til að meta stöðuna,“ segir Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra um niðurstöðu end­urupp­töku­nefndar sem féllst á end­urupp­töku­beiðni fimm manna sem sak­felld­ir voru í tengsl­um við Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­in á átt­unda ára­tugn­um. 

„Það er alltaf sigur fyrir réttarríkið ef mál hafa sinn gang samkvæmt lögum. Það skiptir mestu máli. En ég get ekki tjáð mig um málið efnislega að öðru leyti,“ segir Sigríður aðspurð hvort niðurstaðan sé sigur fyrir réttarkerfið. 

Næstu skref innan dómsmálaráðuneytisins í málinu er að kanna hvort ríkissaksóknari telji sig ennþá vanhæfan í málinu. En Davíð Þór Björg­vins­son var sett­ur rík­is­sak­sókn­ari í ­tilteknum hluta mál­sins það er að veita umsögn um afstöðu embættisins. Hann er ekki sjálfkrafa áfram með málið.

„Það blasir ekki við að það þurfi að gera það. Það hafa ekki komið upp ábendingar um að einhver vanhöld séu á málsmeðferðinni eins og hún er í dag,“ segir Sigríður spurð hvort hún muni beita sér fyrir því að flýta fyrir framgangi málsins innan dómskerfisins. Í því samhengi bendir hún á að mikilvægt sé að lögformlegt ferli sé virt. 

Sigríður er í Færeyjum á fundi með Vestnorræna ráðinu sem er skipað þingmönnum frá Íslandi, Færeyjum og Grænlandi. Hún var fengin sem ráðherra til að ræða um jafnréttismál en áhersla fundarins er á áskoranir karla í jafnréttisumræðunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert