Ferðum aflýst á landsbyggðinni

mbl.is/Hjörtur

Reiknað er með að ferðir Strætó á höfuðborgarsvæðinu verði óbreyttar í dag og er ekki búist við að rask verði á þeim vegna veðurs að sögn Jóhannesar Rúnarssonar, forstjóra Strætó. Staðan verði hins vegar metin þegar líður á daginn ef eitthvað breytist.

Hins vegar hafa ferðir Strætó á landsbyggðinni verið felldar niður í dag. Vísar hann þar til þess að Vegagerðin hafi varað við ferðalögum á landsbyggðinni og að líklega yrði ýmsum vegum lokað fyrir umferð eins og til að mynda um Holtavörðuheiði, Hellisheiði og Kjalarnes. Einhverjar ferðir hafi verið farnar frá Akureyri til Siglufjarðar í morgun en annað ekki.

Þá er mælst til þess farþegar í Akstursþjónustu fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu reyni að fresta ferðum í dag. Búast megi við verulegum töfum á ferðum seinnipartinn í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert