„Forvarnir gærdagsins báru árangur“

Björgunarsveitarmenn standa alltaf vaktina.
Björgunarsveitarmenn standa alltaf vaktina. mbl.is/Rax

„Forvarnir gærdagsins báru árangur. Fólk virðist hafa ferðast minna eftir að tilkynnt var um fyrirhugaðar lokanir,“ segir Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. Ferðaþjónustufyrirtæki brugðust vel við og felldu niður ferðir vegna veðurs. Inn í það hljóti að hafa spilað að félagið sendi hátt í fjórða þúsund tölvupósta þar sem varað var við veðurspánni sem gekk eftir í dag með stormi og úrkomu.  

Skilaboðin virðast einnig hafa borist til eyrna erlendra ferðamanna því fjölsóttir ferðamannastaðir voru nánast tómir. „Það var ekki sála á Þingvöllum. Ég held að það hafi varla gerst áður,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar.
Þorsteinn G. Gunnarsson, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Nokkrir svartir sauðir 

Samt sem áður leynast alltaf svartir sauðir inni á milli. Dæmi eru um að Íslendingar hafi ekki virt lokanir og keyrt inn á vegi þrátt fyrir að björgunarsveitarmenn hafi staðið vaktina og beint þeim tilmælum til ökumanna að vegurinn væri lokaður. „Það eru dæmi um að þetta sama fólk hafi þurft að leita til björgunarsveitarmanna og fá hjálp við að komast úr bílnum sem það hafi fest,“ segir Þorsteinn. 

Talsverður erill var hjá björgunarsveitum víða um land í dag, meðal annars við að hjálpa ökumönnum og koma í veg fyrir frekara foktjón. „Miðað við vindhraða teljum við okkur býsna heppin. Ekkert slys varð á fólki.“

Um 150 til 160 björgunarsveitarmenn hafa verið á vakt og aðgerðastjórn almannavarna höfuðborgarsvæðisins var virkjuð í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert