Gætu lagt úrskurðinn fyrir dómstóla

Erla Bolladóttir við réttarhöldin.
Erla Bolladóttir við réttarhöldin.

Til greina kemur að leggja fyrir dómstóla hvort ógilda skuli úrskurð endurupptökunefndar í máli Erlu Bolladóttur. Þetta segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður hennar, í samtali við mbl.is.

End­urupp­töku­nefnd hafn­aði fyrr í dag beiðni Erlu um end­urupp­töku á dómi sem varðaði aðild­ henn­ar að Guðmund­ar- og Geirfinns­mál­inu.

Ógildi dómstólar úrskurðinn fer málið aftur til endurupptökunefndar.

„Við Erla þurfum að huga að því hvort þessi úrskurður sé haldinn slíkum annmörkum að það sé ástæða til að láta reyna á gildi hans,“ segir Ragnar.

Settur saksóknari breytti afstöðu sinni

Ragnar, sem er einnig lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar, segist mjög ánægður með niðurstöðu nefndarinnar í máli Guðjóns, en jafn óánægður með niðurstöðuna í máli Erlu.

Spurður hvað hann telji valda því, að mál Erlu fái ekki endurupptöku, segir Ragnar að upphaflega hafi settur ríkissaksóknari í málinu, Davíð Þór Björgvinsson, lagst gegn því.

„Hann var heldur á því að það ætti að endurupptaka mál allra hinna. Svo gekkst hann sjálfur fyrir því að mál Kristjáns [Viðars Viðarssonar] væri endurupptekið, þó Kristján færi ekki fram á það.“

Ragnar segir að Davíð hafi snúist hugur við málflutning á síðasta ári, og breytt afstöðu sinni.

„Það var bókað í fundargerð nefndarinnar. En mér sýnist sem hún hafi ekki tekið neitt tillit til þess í úrskurði sínum, að minnsta kosti ekki í þeim kafla sem fjallar um afstöðu ákæruvaldsins.“

Ragnar við hlið Lúðvíks Bergvinssonar, sem er lögmaður erfingja þeirra …
Ragnar við hlið Lúðvíks Bergvinssonar, sem er lögmaður erfingja þeirra Tryggva Rúnars Leifssonar og Sævars Ciesielski. mbl.is/Árni Sæberg

Sérkennileg megináhersla

Erla var á sín­um tíma sak­felld fyr­ir að hafa á ár­inu 1976 gerst sek um rang­ar sak­argift­ir með því að bera á fjóra nafn­greinda menn, Ein­ar Gunn­ar Bolla­son, Magnús Leópolds­son, Sig­ur­björn Ei­ríks­son og Valdi­mar Ol­sen, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Ein­ars­son­ar.

Röngu sak­argift­irn­ar hefðu leitt til þess að mönn­un­um hafi verið gert að sæta löngu gæslu­v­arðhaldi í þágu rann­sókn­ar máls­ins. Erla hlaut jafn­framt dóm fyr­ir fjár­svik en var sýknuð í Hæsta­rétti af ákæru fyr­ir hlut­deild í mann­drápi.

Ragnar segir að sér finnist sérkennilegt að megináhersla sé lögð á að Erla hafi borið mennina fjóra, svokallaða „klúbbmenn“, röngum sökum, þegar hún hafi verið frjáls og ekki í gæsluvarðhaldi.

„Hins vegar er ekki fjallað um það að á þeim tíma voru lögreglumennirnir sem rannsökuðu málið sífellt heima hjá henni, ásamt rannsóknardómaranum, vinguðust við hana og reyndu að fá hana til að segja það sem þeim þótti heppilegt,“ segir Ragnar.

„Nefndin segir að hún hafi verið vitni á þeim tíma. Þrátt fyrir það var á sama tíma ákveðið að hún skyldi sæta geðrannsókn. Geðrannsókn sæta eingöngu sakborningar, ekki vitni, þannig að það er augljóst að dómarinn og lögreglumennirnir litu á hana sem seka.“

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður.
Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður.

Nöfnin komu frá lögreglumönnunum

Ragnar segir þá að svo virðist sem endurupptökunefndin skilji ekki hversu mikið álag hafi fylgt því fyrir Erlu, þegar farið var með hana í Hegningarhúsið á meðan heima hjá henni var nýfætt barn hennar.

„Hún mátti búast við því í hvert skipti að hún kæmist ekki úr fangelsinu aftur. Þá hefur maður tilhneigingu til að segja það sem hentar til að komast til baka,“ segir Ragnar.

„Hennar framburður var því fullkomlega ótrúverðugur, auk þess sem það liggur fyrir í skjölum málsins að þessi nöfn sem voru nefnd, ekki bara þessi fjögur heldur mörg önnur, komu að meginstefnu frá lögreglumönnunum, en þeir voru með allt að tuttugu manns í huga sem höfðu mögulega verið í fjörunni í Dráttarbrautinni, daginn sem Geirfinnur á að hafa horfið.

Af einhverjum ástæðum valdi lögregla þessa fjóra úr, og handtók þá.“

Klárari sýn en Hæstiréttur hafði

Aðspurður segir hann það ekki ólíklegt að hann verði verjandi Guðjóns í komandi réttarhöldum. Þá séu úrskurðir endurupptökunefndar ekki alslæmir.

„Það er margt gott að finna í röksemdum nefndarinnar. Hún gerir sér til dæmis miklu betur grein fyrir því hvaða þýðingu mannréttindaákvæði höfðu á þessum tíma, miklu betur en Hæstiréttur gerði þegar hann synjaði um endurupptöku á máli Sævars Ciesielski rétt fyrir aldamót.

Nefndarmenn gera sér grein fyrir þýðingu dóma Mannréttindadómstóls Evrópu og hafa mun klárari sýn á réttarástandið en Hæstiréttur á þeim tíma.“

Hæstiréttur Íslands.
Hæstiréttur Íslands. mbl.is/Golli

„Auðvitað allir vanhæfir“

Ragnar hefur talað um að dómarar við Hæstarétt gætu þurft að víkja sæti við meðferð málsins.

„Það er augljóst að allir þeir dómarar sem tóku þátt í að synja um endurupptöku Sævars, sem var reyndar tvívegis, og Erlu, þeir eru auðvitað allir vanhæfir. Þá er spurning hvort allir dómararnir eru vanhæfir eða ekki, það eftir að koma í ljós.“

Þið munið þá gera kröfu um að viðkomandi dómarar víki sæti?

„Já, en ég held að dómararnir muni nú átta sig á því fyrirfram.“

Tveir valkostir ákæruvaldsins

Spurður að lokum hvað taki nú við, hvaða meðferð málið fái núna, segir Ragnar að gamla ákæran verði lögð fram að nýju.

„Hún heldur velli og það má ekki bæta við hana. Síðan er það hlutverk ákæruvaldsins að gera upp við sig hvort það muni krefjast sakfellingar, vegna mannshvarfanna, eða sýknu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert