Hafna beiðni um endurupptöku í máli Erlu

Erla Bolladóttir hlaut þriggja ára fangelsisdóm fyrir rangar sakgiftir í …
Erla Bolladóttir hlaut þriggja ára fangelsisdóm fyrir rangar sakgiftir í tengslum við hvarf Geirfinns Einarssonar.

Endurupptökunefnd hafnar beiðni um endurupptöku á dómi í máli Erlu Bolladóttur vegna meintrar aðildar hennar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Höfnunin varðar beiðni um endurupptöku á dómi í hæstaréttarmáli nr. 214/1978 hvað varðar sakfellingu Erlu fyrir brot á 1. mgr. 148. gr. almennra hegningarlaga, „með því að hafa borið þær röngu sakir á Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar og smyglbrotum,“ að því er segir í úrskurðarorðum endurupptökunefndar sem birt voru kl. 14.00 í dag.

Var sýknuð af hlutdeild í manndrápi

Erla var á sínum tíma sakfelld fyrir að hafa á árinu 1976 gerst sek um rangar sakargiftir með því að bera á fjóra nafngreinda menn, Einar Gunnar Bollason, Magnús Leópoldsson, Sigurbjörn Eiríksson og Valdimar Olsen, að þeir hefðu átt hlut að dauða Geirfinns Einarssonar. Röngu sakargiftirnar hafi leitt til þess að mönnunum hafi verið gert að sæta löngu gæsluvarðhaldi í þágu rannsóknar málsins. Erla hlaut jafnframt dóm fyrir fjársvik en var sýknuð í Hæstarétti af ákæru fyrir hlutdeild í manndrápi.

Erla Bolladóttir.
Erla Bolladóttir. mbl.is/Golli

Hlaut hún þriggja ára fangelsisdóm og sat í gæsluvarðhaldi í 239 daga. Erla hóf afplánun hinn 27. október 1980 og stóð það til 9. ágúst 1981. Þann dag var Erlu veitt reynslulausn á 555 daga eftirstöðvum refsingarinnar.

Með erindi dagsettu í  júní 2014 fór Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður þess á leit fyrir hönd Erlu að mál hennar, sem dæmt var í Hæstarétti Íslands 22. febrúar 1980, yrði endurupptekið. Erla hafði einnig farið fram á endurupptöku málsins árið 2000 sem Hæstiréttur féllst þá ekki á. Ekki var óskað eftir endurupptöku dóms Hæstaréttar að því er tekur til fjársvika og tengdra brota og var því ekki talin ástæða til að reifa það nánar.

Nokkrir þættir ráða úrslitum

Í samanteknum niðurstöðum úrskurðarins í máli Erlu, sem birtur var í dag og telur 1040 blaðsíður, kemur fram að það sé niðurstaða endurupptökunefndar að endurupptökubeiðandi hafi ekki sýnt fram á að skilyrði séu til endurupptöku málsins. Þar ráði einkum eftirfarandi atriði úrslitum:

-Endurupptökubeiðandi var eingöngu sakfelld fyrir rangar sakargiftir í samræmi við ákæru dagsetta 16. mars 1977, en sýknuð fyrir Hæstarétti af allri aðild að refsiverðri háttsemi í tengslum við hvarf Geirfinns Einarssonar.

-Endurupptökubeiðandi bar rangar sakir á tvo nafngreinda menn í fyrsta sinn 23. janúar 1976 hafði hún verið frjáls ferða sinna í 34 daga, frá 21. desember 1975 til og með 23. janúar 1976. Þegar hún bar sakir á tvo aðra menn, 3. febrúar 1976, hafði hún verið frjáls ferða sinna í 44 daga.

- Brot endurupptökubeiðanda var fullframið 23. janúar 1976 gagnvart tveimur mannanna og hinum tveimur 3. febrúar sama ár. Síðari tilvik sem ákært var fyrir fela í sér endurtekningu sem kann að hafa áhrif á refsingu en breyta ekki þeirri stund sem brotin voru fullframin.

-Endurupptökubeiðandi byggir ekki á því að það sé rangt að hún hafi borið rangar sakir á mennina í umrædd skipti eða að játning hennar sem lögð var til grundvallar sé efnislega röng.

-Engin gögn liggja fyrir um að endurupptökubeiðandi hafi verið knúin eða hvött til þessara röngu sakargifta af rannsakendum eða öðrum.

Er það þar af leiðandi niðurstaða endurupptökunefndarinnar að beiðni um endurupptöku máls Erlu hvað varðar sakfellingu fyrir rangar sakargiftir hafnað.

Þá telur endurupptökunefnd þóknun talsmanns endurupptökubeiðanda, Ragnars Aðalsteinssonar hæstaréttarlögmanns, hæfilega ákveðna 10.334.900 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði sem greiðist úr ríkissjóði, að því er segir í úrskurðarorðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert