Ögurstund í Geirfinnsmáli

Frá réttarhöldum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.
Frá réttarhöldum í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu.

Endurupptökunefnd mun í dag kl. 14 birta niðurstöður sínar í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu á heimasíðu nefndarinnar. Um er að ræða úrskurði nefndarinnar er lúta að því hvort taka eigi upp að nýju mál sexmenninganna sem dæmdir voru fyrir aðild sína að hvarfi þeirra Guðmundar Einarssonar og Geirfinns Einarssonar.

Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður og lögmaður endurupptökubeiðendanna Erlu Bolladóttur og Guðjóns Skarphéðinssonar, telur einsýnt að niðurstaða endurupptökunefndar verði sú að heimila endurupptöku málsins fyrir Hæstarétti. Honum finnst öll rök hníga í þá átt. 

Aftur fyrir Hæstarétt

„Ákveði nefndin að tilefni sé til endurupptöku, þá leggur ákæruvaldið, í þessu tilfelli settur ríkissaksóknari, málið fyrir Hæstarétt aftur á grundvelli sömu ákæru, að því viðbættu að það eru komin ný skjöl í málið,“ sagði Ragnar í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ragnar sagði að saksóknari gæti gert kröfur. „Hann getur krafist þess að sexmenningarnir verði sakfelldir fyrir mannshvörfin og rangar sakargiftir, en endurupptakan snýr eingöngu að þeim atriðum, ekki að póstsvikum eða innflutningi á fíkniefnum. Ef saksóknari gerir það, þá þarf hann auðvitað að sanna upp á nýtt sekt þessara sakborninga.

Saksóknari getur líka ákveðið að krefjast sýknu af mannshvörfunum og röngum sakargiftum, og þá er dómstóllinn bundinn af þeirri kröfu,“ sagði Ragnar. 

Taldi rök vera fyrir hendi

Davíð Þór Björgvinsson, settur ríkissaksóknari í Guðmundar- og Geirfinnsmálinu, komst að þeirri niðurstöðu sumarið 2015 og haustið 2016 að rök væru fyrir hendi til endurupptöku á máli þeirra sem dæmd voru.

Ragnar var spurður hvort það væri afráðið að Davíð Þór yrði saksóknari, ef á annað borð kemur til endurupptöku: „Mér þykir það eiginlega alveg einboðið að Davíð Þór verði saksóknari, komi til endurupptöku, svo framarlega sem hann er í aðstöðu til þess að sinna því áfram, vegna þess að það er svo dýrt að fá nýjan mann og tefur málið alveg gríðarlega líka,“ sagði Ragnar.

Ragnar segir að komi til endurupptöku verði hver sexmenninganna með sinn eða sína verjendur, en bendir um leið á að þeir Sævar Ciesielski og Tryggvi Leifsson eru látnir, þannig að ekki sé hægt að dæma þá upp á nýtt.

Dýrt að fá nýjan saksóknara

Aðspurður hvort hann teldi að málið myndi taka langan tíma fyrir Hæstarétti, komi til endurupptöku, sagði Ragnar: „Það er langlíklegast að það taki nokkuð langan tíma að gera ágrip dómskjalanna, nema það verði settur í það alveg sérstakur kraftur. Það voru 27 bindi málskjala fyrir Hæstarétti árið 1980. Síðan hefur mikið bæst við. Síðustu nýju skjölin sem við sáum voru bara fyrir fimm dögum. Það þarf að gera ágrip af öllum þessum skjölum, eftir ákveðnum reglum, þannig að það mun tefja málið og svo er það náttúrulega spurning hvaða dómarar munu skipa Hæstarétt, komi til endurupptöku. Hæstiréttur er að sjálfsögðu búinn að synja um endurupptöku í máli Sævars og Erlu og þannig búinn að taka afstöðu og því er spurning hvort þeir víkja allir sem þá skipuðu réttinn.“

Endurupptökunefnd hefur fjallað um mál þeirra Sævars Ciesielskis, Kristjáns Viðars Viðarssonar, Alberts Klahn Skaftasonar, Tryggva Rúnars Leifssonar, Guðjóns Skarphéðinssonar og Erlu Bolladóttur frá árinu 2014. Sakborningar í málinu höfðu farið fram á að málið yrði tekið upp að nýju, að Kristjáni Viðari undanskildum. Ríkissaksóknari beindi því til endurupptökunefndar að mál hans yrði einnig skoðað.

Til stóð að endurupptökunefnd kynnti niðurstöður sínar í fyrra, en það frestaðist vegna ábendingar um hvarf Geirfinns. Fram hefur komið að ábendingin hafi ekki breytt niðurstöðu nefndarinnar. 

Ákvörðunin endanleg

Fram kom á mbl.is á þriðjudag, að Björn L. Bergsson, formaður endurupptökunefndar, vildi ekki gefa upp fyrir fram hver niðurstaða nefndarinnar er, en hann sagði að ákvörðun hennar væri endanleg. Það þýði að ef nefndin synji málinu endurupptöku sé því lokið og ef hún mæli fyrir endurupptöku verði málsaðilar að beina því til viðkomandi dómstóls sem síðan taki afstöðu til málsins. 

Í lögum um stofnun endurskoðunarnefndar, frá 2013, segir m.a. í 169. grein, sem fjallar um endurupptöku máls sem dæmt hefur verið í Hæstarétti: „169. gr. 1. Endurupptökunefnd samkvæmt lögum um dómstóla getur leyft samkvæmt umsókn aðila að mál sem dæmt hefur verið í Hæstarétti verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu að nýju ef fullnægt er þeim skilyrðum sem greinir í 167. gr.

2. Aðili getur ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. nema einu sinni. Að öðru leyti getur aðili ekki afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku.“

Ragnar Aðalsteinsson skrifaði í fyrra grein í Kjarnann um Hæstarétt og endurupptökunefnd.

Í greinarlok skrifaði Ragnar: „Með lagabreytingunum 2013 um stofnun endurupptökunefndar var tekið mikilvægt framfaraspor í því skyni að auka réttaröryggi í landinu. Það er ekki síst í því fólgið að málsmeðferð fyrir endurupptökunefnd fer eftir ákvæðum laga um meðferð sakamála og laga um meðferð einkamála, enda þótt um stjórnsýslunefnd sé að ræða. Málsmeðferðin fyrir nefndinni er því opin og gagnsæ í stað þess að vera lokuð og ógagnsæ. Nefndin hefur því ýmis einkenni dómstóls og minnir um margt á stjórnsýsludómstóla í nágrannaríkjum okkar. Brýnt er að ekki verði stigið spor til baka til fyrri hátta á þessu sviði og réttaröryggi skert með því.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert