Farið að bæta í vind og úrkomu

Byrjað er að bæta í vind og úrkomu og ljóst að óveðrið sem búið var að spá er komið til landsins. Veðrið nær hámarki á suðvesturhluta landsins um hádegi og verður mjög slæmt þar til síðdegis. Búið að er að aflýsa innanlandsflugi í dag og eins verður fjölmörgum leiðum væntanlega lokað. 

Samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni má búast við að færð spillist mjög víða í dag og ekkert ferðaveður verði á landinu, því má búast við eftirfarandi lokunum á vegum:

09:00 – 18.00 Eyjaföll og Hellisheiði.

11:00 – 18:00 Mosfellsheiði og Lyngdalsheiði.

12:00 – 17:00 Reykjanesbraut.

12:00 – 18:00 Kjalarnes og Hafnarfjall.

15:00 – 21:00 Holtavörðuheiði og Brattabrekka.

16:00 og fram á kvöld Mývatns- og Möðrudalsöræfi, Fjarðarheiði, Fagridalur og Oddsskarð.

Ferð Herjólfs fellur niður í dag, frá Eyjum 08:00 og frá Þorlákshöfn 11:45. Tilkynning varðandi siglingar síðdegis verður send út fyrir klukkan 15:00 í dag, segir í tilkynningu frá Herjólfi.

Óli Þór Árna­son, veður­fræðing­ur hjá Veður­stofu Íslands, segir að það sé þegar farið að hvessa mikið á Hellisheiði og þar sé þegar komið leiðindaveður. Reykjanesbrautin verður einnig farartálmi í dag og er fólk beðið um að fylgjast grannt með upplýsingum um veður og færð.

Jafnframt sé ágætt að fylgja börnum í skóla, að minnsta kosti þar sem þau þurfa að fara langa leið. 

Veðurstofa Íslands.

Að sögn Óla erum við í jaðri skilanna og úrkomuskilin eru þegar komin inn á Suðvesturland og mun bæta verulega í vind og úrkomu á næstu klukkustundum.

Hann á von á því að það bæti áfram í úrkomu og það áður en vindur nær hámarki. „Stóra spurningin er hvort það verður farið að hlýna þegar úrkoman nær hámarki. Það er hvort við fáum yfir okkur slydduhraglanda áður en fer að rigna,“ segir Óli Þór. 

Í dag verður vonskuveður á landinu. Vaxandi suðaustanátt með snjókomu um landið suðvestanvert, stormur eða rok (20-28 m/s) víða síðdegis. Hlýnar smám saman og fer þá úrkoman yfir í rigningu.

Veðrið ætti að ná hámarki fljótlega eftir hádegi suðvestanlands en síðdegis í öðrum landshlutum. Milli k. 16 og 17 í dag fer að lægja og draga úr vætu, fyrst á Reykjanesi og fljótlega eftir miðnætti ganga skilin síðan norðaustur af landinu.

Í nótt og á morgun verður komin vestlæg átt, víða 8-15 m/s með éljum um landið sunnan- og vestanvert, en hvassara verður á stöku stað seint í nótt og í fyrramálið. Annað kvöld og aðfaranótt sunnudags gæti snjóað nokkuð samfellt úr smáskilum á Suður- og Vesturlandi, en styttir upp að mestu um morguninn og munu þá skilin ganga norður yfir landið með snjókomu nokkuð víða, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands.

Veðurspá fyrir næsta sólarhring:

Vaxandi suðaustanátt, víða 20-28 m/s síðdegis. Snjókoma eða slydda og síðan rigning. Talsverð eða mikil rigning um tíma suðaustanlands seint í dag. Hlýnar í veðri. Snýst í mun hægari sunnan- og suðvestanátt fyrst suðvestan til undir kvöld, með skúrum eða éljum. Hiti 1 til 7 stig. Hvessir um tíma í nótt með éljum, en dregur síðan smám saman úr vindi á morgun. Hiti um frostmark á morgun.
Á laugardag:

Suðvestan 8-15 með éljum. Frost 0 til 6 stig og léttir til norðan- og austanlands. Suðaustlægari um kvöldið.

Á sunnudag:
Hvöss austanátt um morguninn með slyddu eða snjókomu og hita kringum frostmark, en snýst síðan í mun hægari sunnanátt með éljum.

Á mánudag:
Norðaustanátt, él og frystir um landið norðanvert, en léttir til suðvestanlands og hiti í kringum frostmark.

Á þriðjudag:
Fremur hæg austlæg átt, yfirleitt þurrt og víða bjart. Frost um mestallt land.

Á miðvikudag og fimmtudag:
Útlit fyrir norðaustlæga átt með dálitlum éljum um landið N- og A-vert, en lengst af þurrt SV-til. Frost 0 til 8 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert